Engin ástæða til að óttast vöruskort

Mynd: RÚV / RÚV
Starfsmenn matvöruverslana grípa nú til ráðstafana á borð við þær sem viðskiptavinir máttu venjast í vor. Við innganga standa starfsmenn og telja fjölda þeirra sem koma inn í verslanir og sjálfsafgreiðsluborð eru þrifin milli viðskiptavina. Framkvæmdastjóri Bónus segir ekki bera á því að fólk hamstri vörur, enda sé engin ástæða til að óttast vöruskort.

Sóttvarnarreglur voru hertar nú á hádegi. Nú mega ekki koma saman fleiri en hundrað, en fjöldinn var áður takmarkaður við fimm hundruð. Reglan um að fólk þurfi að halda tveggja metra fjarlægð milli sín, sem undanfarnar vikur hefur verið valkvæð, verður gerð að skyldu. Þar sem ekki verður hægt að tryggja fjarlægð milli fólks verður það að bera grímur. 

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, segir í samtali við fréttastofu að fyrirtækið bjóði starfsfólki upp á grímur og að skermum fyrir framan afgreiðsluborð, sem settir voru upp í vor, hafi nú aftur verið komið upp. 

Aðspurður segir Guðmundur að ekki sé farið að bera á því að fólk hamstri vörur, enda sé engin ástæða til. „Það er nóg til,“ segir hann.  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi