Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Baráttan í Himalajafjöllum

31.07.2020 - 07:27
Erlent · Himalaja · Indland · Kína
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Indversk og kínversk yfirvöld reyna nú að toppa hvort annað í framkvæmdum við umdeild landamæri ríkjanna í Himalaja fjallgarðinum. Vegaframkvæmdir Indverja, sem nýlega luku við að leggja veg sem liggur að herstöð flughersins við landamæri ríkjanna, eru sagðar vera ein helsta kveikja þess að til átaka kom milli kínverska og indverskra hersveita sem kostuðu 20 indverska hermenn hið minnsta lífið.

Hinn 255 km langi Darbuk-Shyok-Daulat Beg Oldi vegur (DSDBO vegur) hlykkjast í gengum fjallaskörð að flugbraut, sem í yfir 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli er ein hæsta flugbraut heims. Vegagerðinni lauk í fyrra eftir tæplega tveggja áratuga vinnu og með henni jukust möguleikar indverska hersins á að koma bæði mönnum og búnaði að landamærunum með hraði ef til átaka kemur.

BBC fjallar um málið í ítarlegri fréttaskýringu og segir átök hersveitanna sem áttu sér stað á Ladakh Galwan svæðinu 15. júní hafa aukið áhyggjur af að sjóða kunni upp úr í áður eldfimum samskiptum.

Ríkin tvö bökkuðu varlega eftir átökin í Ladakh Galwan, fámennu héraði hátt uppi í Himalaja fjöllum sem hefur náin söguleg og menningaleg tengsl við Tíbet. 

Héraðinu var skipt milli Indlands og Kína eftir að Indland öðlaðist sjálfstæði frá Bretum árið 1947. Indland og Kína hafa þó aldrei orðið sammála um nákvæma legu 3.500 km langra landamæra og herir ríkjanna, sem eru með þeim fjölmennustu í heimi, mætast víða á þessu hrjóstruga svæði.

Bæði ríkin hafa varið fé og mannafla í að leggja vegi, járnbrautarteina og flugbrautir í nágrenni svo nefndrar LAC línu, sem eru hin raunverulegu mörk sem skilja að Indland og Kína. Þá vinna þau einnig að því að uppfæra herbúnað sinn á svæðinu.

Nýlegar framkvæmdir Indverja, ekki hvað síst vegagerðin, hafa vakið reiði kínverskra yfirvalda sem árum saman hafa staðið að framkvæmdum sín megin landamæranna.

 

Mynd með færslu
 Mynd:
Himalaja fjallgarðurinn

Úthugsaðar aðgerðir til að bæta herstyrk

Bæði ríkin líta svo á að framkvæmdir hins ríkisins séu úthugsaðar til að bæta herstyrk á svæðinu og spennan eykst í hvert skipti sem annað ríkið tilkynnir um umfangsmiklar framkvæmdir.

Sumarið 2017 kom upp pattstaða á Doklam sléttunni, sem er austur af Ladakh. Líkt og nú þá varð sá ágreiningur líka vegna vegaframkvæmda, sem að þessu sinni áttu sér stað Kínamegin landamæranna.

Indverskar hersveitir hafa lengi verið staðsettar á þessum slóðum og eftir að Daulat Beg Oldi flugbrautin var tekin aftur í notkun árið 2008 jukust möguleikar Indverja á að bregðast fljótt við. Fram að því fengu hersveitirnar sendar vistir sem látnar voru falla úr þyrlu og ekki var hægt að flytja neitt á brott frá herstöðinni, sem með tímanum varð að „vörukirkjugarði“.

DSDBO vegurinn eykur nú möguleika hersins á að bregðast enn skjótar við.

Vegaframkvæmdunum er þó ekki lokið, því nú er unnið að því að tengja svæðið við birgðastöð innar í landi og útvarðarstöðvar meðfram LAC línunni.

Slíkt breytir hernaðarstöðu Indverja á svæðinu verulega.

 

Mynd með færslu

 

Flytja 12.000 verkamenn til að vinna að vegagerð

Indverjar hafa líka tilkynnt að þeir ætli sér að halda áfram núverandi innviðauppbyggingu þrátt fyrir síðustu átök.

Þannig er nú unnið að því að flytja um 12.000 verkamenn frá Jharkhand fylki í austurhluta landsins til að hefja vegagerð í Ladakh, Himachal Pradesh og Uttarakhand. Öll fylkin liggja við landamæri Indlands og Kína og eiga vegirnir að liggja nærri þeim landamærum.

BBC segir indversk stjórnvöld nú vinna að því hörðum höndum að draga úr forskoti Kínverja eftir að hafa árum saman látið innviði á landamærasvæðum drabbast niður.

Þegar er búið að heimila lagningu 73 hernaðarlega mikilvægra vega og byggingu 125 brúa á ýmsum stöðum í nágrenni LAC línunnar. Framkvæmdirnar ganga þó hægt, enda hægir hrjóstrugt landið, skrifræði, fjárlög og landkaup á framkvæmdunum. 

Þegar er þó lokið við lagningu 35 vega og gert er ráð fyrir að lagningu 11 vega til viðbótar verði lokið fyrir árslok.

Indversk stjórnvöld hafa einnig samþykkt lagningu níu lestarlína sem taldar eru hafa hernaðarlegt mikilvægi og liggja nærri landamærunum. Þær munu líka gera hernum kleift að flytja þung hergögn reynist þess þörf.

Mikil uppbygging og endurgerð flugvalla, sem eiga að geta tekið á móti bæði orrystuþotum og herþyrlum, á sér sömuleiðis stað.

Indverski herinn er þó fjarri því að ná að vinna upp forskot Kínverja.

 

 

Mynd með færslu
Indverskir hermenn í Kasmír. Mynd:
Indverskir hermenn í Kasmír.

Kínverjar með net flugstöðva og herbúa

Kínversk stjórnvöld hafa undanfarin ár unnið að því að byggja upp net herflugstöðva, herbúða og annarra innviða meðfram landamærunum.

Það var raunar þegar á sjötta áratug síðustu aldar sem Kína byrjaði að leggja vegi í Himalaja fjöllum og nú þegar er víðtækt net vega og lestarlína í bæði Tíbet og Yunnan héraðinu.

Frá 2016 hafa þau síðan bætt um betur með því að auka tengingar vega á svæðinu sem á landamæri að Indlandi, Bútan og Nepal.

Þá stendur yfir vinna við gamla þjóðleið sem liggur milli Tíbet og Xinjiang, sem hefur verið í fréttum undanfarin misseri vegna meðferðar kínverskra yfirvalda á uighur múslimum. Sá vegur nær næstum alla leið eftir landamærum Indlands og Kína.

Lagning tveggja járnbrautarlína í nágrenni landamæranna er einnig í vinnslu og þá verður gerð vegar í nágrenni Arunachal Pradesh á Indlandi lokið fyrir árslok.

Tugur kínverskra flugvalla eru nærri landamærunum og fimm þeirra eru bæði herflugvellir og almennir flugvellir. Þrír flugvellir til viðbótar eru nú í byggingu og er þar gert ráð fyrir neðanjarðarbyrgjum og flugbrautum sem eiga að þola öll veður.

Mynd með færslu
Myndin er tekin skammt frá borginni Kashgar í Xinjiang héraði Kína. Mynd: Wikimedia Commons
Xinjiang héraðið í Kína liggur nærri landamærum Indlands.

 

Tryggja flutning komi til átaka

Sérfræðingar segja Indverja hafa ákveðið forskot hvað flugherinn varðar. Kínversku flugherstöðvarnar eru flestar fjær landamærunum en þær indversku og í þunnu háfjallaloftinu þýðir það að herþoturnar geta borið minna eldsneyti og færri sprengihleðslur.

Uppbygging innviða beggja vegna landamæranna hefur þann tilgang helstan hjá báðum þjóðum — að tryggja hraðan flutning að landamærunum komi til átaka.

Kína og Indland hafa einu sinni háð stríð. Það var árið 1962 og Indverjar biðu niðurlægjandi ósigur fyrir nágrönnum sínum.

Indversk yfirvöld voru lengi þeirrar skoðunar að uppbygging innviða Indlandsmegin landamæranna myndi auðvelda kínverskum her að komast leiðar sinnar færi hannn þar yfir.

Í seinni tíð hafa þau hins vegar hörfað frá þeim rökum og líklegt má telja að uppbyggingin sem á sér nú stað beggja vegna landamæranna eigi eftir að kynda undir frekari átökum í framtíðinni.