Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Alls 79 sagt upp í tveimur hópuppsögnum í júlí

31.07.2020 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvær tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í júlí og ná þær til 79 manns.

Alls var 155 sagt upp í júní í fjórum hópuppsögnum. Þetta er töluverð minnkun miðað við maí þegar 1.323 manns var sagt upp í 23 hópupp­sögn­um og í apríl þegar tæplega fjögur þúsund manns var sagt upp í 35 hópuppsögnum, þar af rúmlega tvö þúsund hjá Icelandair.

Loka þjónustuskrifstofum til að tryggja afgreiðslu bóta 

Vinnumálastofnun tilkynnti í gær um lokun þjónustuskrifstofa sinna eftir að stjórnvöld gerðu landsmönnum að fylgja tveggja metra reglunni á ný í gær.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar segir þetta gert af öryggisástæðum svo að tryggt verði að atvinnuleitendur fái greiddar atvinnuleysisbætur. Unnur segir að meðan starfsfólkið sé að vinna úr umsóknum sé það of flókið og mannfrekt að tryggja tveggja metra regluna milli fólks fyllilega og því sé brugðið á þetta ráð. Staðan verði endurmetin aftur 13. ágúst. Eins og er eiga hertar reglur sóttvarnalæknis eiga að vera í gildi þangað til.

Þrjátíu nýir starfsmenn voru ráðnir til Vinnumálastofnunar í maí til að anna álaginum sem veirufaraldurinn skapaði.
Unnur segir það ganga alveg ágætlega að minnka biðtímann eftir afgreiðslu bóta. Hann sé núna að komast undir átta vikur. „Við teljum það þokkalega ásættanlegt miðað við það árferði sem er í dag.“

Uppfært 17:20 - Fréttastofa greindi frá því í dag að Póstdreifing hafi sagt upp 304 blaðberum og að uppsagnirnar taki gildi 1. ágúst.  Samkvæmt Póstdreifingu var sú hópuppsögn tilkynnt Vinnumálastofnun nú fyrir mánaðarmótin.