Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

9 af 11 sem greindust í gær voru ekki í sóttkví

31.07.2020 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Níu af þeim ellefu sem greindust með innanlandssmit í gær voru ekki í sóttkví, samkvæmt upplýsingum frá smitrakningateyminu. Verið er að taka saman gögn til að sjá hvort þeir hafi haft tengsl við þá sem hafa greinst síðustu daga og ætti það að liggja fyrir á upplýsingafundinum í dag. Þrír til viðbótar greindust með kórónuveiruna við landamæraskimun, einn reyndist vera með mótefni, annar með virkt smit og beðið er eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu hjá þeim þriðja.

Á þriðja hundrað er nú í sóttkví og má reikna með að þeim fjölgi ört næstu daga.

Hertar reglur tóku gildi í dag, samkomubann er nú bundið við 100 í stað 500 og Strætó hefur ákveðið að taka upp grímuskyldu hjá farþegum sínum. Eftir að blaðamannafundi ráðherra og almannavarna lauk í gær varð algjör sprenging í grímusölu og þær hreinlega rifnar út úr verslunum.

Víða um Evrópu óttast yfirvöld að önnur bylgja faraldursins sé nú farin að láta á sér kræla.

Breskir ráðamenn tilkynntu í morgun að þeir hefðu ákveðið að fresta frekari tilslökunum eftir að smitum tók að fjölga á ný og þá hefur verið gripið til hertra aðgerða á Spáni.

Upplýsingafundur almannavarna verður í dag klukkan tvö. Þar mætir þríeykið til leiks á nýjan leik. Sýnt verður beint frá fundinum á RÚV, ruv.is og honum útvarpað á Rás 2.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV