Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

72% færri gistinætur í júní í ár en í fyrra

31.07.2020 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júní dróst saman um 72% samanborið við júní í fyrra. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 79% og um 75% á gistiheimilum. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands.

Þar segir að  63% fækkun hafi orðið á öðrum tegundum gististaða, sem eru meðal annars farfuglaheimili, orlofshús og tjaldsvæði. Ekki var hægt að áætla erlendar gistinætur á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður.

86% voru Íslendingar 

Í tölum Hagstofu kemur fram að greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 263.400 í júní en þær voru um 942.700 í sama mánuði árið áður. Um 86% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, um 227.000 og um 14% á erlenda gesti, eða um 36.400 nætur.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 127.700, þar af 89.900 á hótelum. Á öðrum tegundum gististaða voru um 135.700 gistinætur.

32 hótel voru lokuð í júní, samkvæmt tölum Hagstofu og framboð gistirýmis var 24% minna en í júní í fyrra. Herbergjanýting á hótelum í júní 2020 var 20,5% og dróst saman um 51,4 prósentustig frá fyrra ári.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir