„Það vita allir um þennan mann“

Mynd: NBA / NBA

„Það vita allir um þennan mann“

30.07.2020 - 13:52
Draumaliðið, bandaríska körfuboltalandsliðið á Ólympíuleikunum 1992, er meðal þess sem er til umfjöllunar í þættinum Ólympíukvöld á RÚV klukkan 19:40 í kvöld.

Bandaríska landsliðið í körfubolta vann til gullverðlauna og stal senunni á leikunum og hefur allar götur síðan verið kallað „Draumaliðið“ eða „The Dream Team“. Liðið var skipað ótrúlega hæfileikaríkum leikmönnum á borð við Scottie Pippen, Michael Jordan, Larry Bird og Magic Johnson. Svali Björgvinsson, körfuboltasérfræðingur, er meðal gesta í settinu hjá Kristjönu Arnarsdóttur í þættinum í kvöld.

„Þetta breytti ekki bara miklu í körfubolta, þetta breytti bara íþróttasögunni. Í mínum huga er þetta merkilegasta íþróttalið sem hefur verið sett saman. Ef þú spyrð um Ólympíuleika 1992 þá nefna allir Draumaliðið,“ segir Svali.

„Þetta eru ellefu aðilar sem fara í frægðarhöllina. Magic Johnson, sem í nóvember 1991 greinist með alnæmi, sem var lítið þekktur sjúkdómur og ýmsir fordómar í kringum það og að hann skyldi fara á leikana. Hann er að taka sinn síðasta dans þarna.“

„Svo kemur þarna leikmaður sem heitir Michael Jordan. Ég hef ekki hitt manneskju ennþá sem veit ekki hver Jordan er. Það vita allir hver hann er og að hann spilaði í Chicago. Það er fullt af fólki sem veit ekki hvar Ronaldo hefur spilað eða Pelé, en það vita allir um þennan mann,“ segir Svali jafnframt.

Ólympíukvöld er á dagskrá RÚV í kvöld kl. 19:40. Í spilaranum hér að ofan er hægt að sjá brot úr þættinum.