Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur starfsaldursdeilu geta átt erindi til Félagsdóms

30.07.2020 - 21:55
Mynd með færslu
 Mynd: Bogi Ágústsson - RÚV
Sjötíu flugfreyjur í Flugfreyjufélagi Íslands telja Icelandair hafa sniðgengið sig með því að horfa ekki til starfsaldurs við endurráðningu. Sérfræðingur í vinnurétti telur deiluna eiga fullt erindi á borð Félagsdóms. 

 

Icelandair hefur endurráðið 170 flugfreyjur, af þeim 900 sem sagt var upp í vor. Samkvæmt heimildum fréttastofu hétu forsvarsmenn Icelandair því, þegar tilkynnt var um hópuppsögnina á starfsmannafundi, að ráðið yrði aftur inn eftir starfsaldursröð. Flugfreyjurnar sjötíu, sem flestar eru komnar yfir fertugt, bjuggust við að fá ráðningu og segja öðrum hafa verið kippt fram fyrir röðina. „Ef þetta loforð er gefið án nokkurra fyrirvara á svona fjölmennum fundi þá eru þeir bara bundnir af því,“ segir Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnuréttarmálum.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lára V. Júlíusdóttir.

 

Íhuga að fara í hart

Samkvæmt heimildum fréttastofu íhugar Flugfreyjufélagið að fara í hart ef viðræður við Icelandair skila ekki árangri. „Ég ætla ekki að tjá mig um niðurstöðu fyrir dómstólum eða fyrir félagsdómi, svona fyrirfram, en ég myndi telja að svona mál ætti alveg erindi til Félagsdóms, ef verið er að brjóta þarna á hópnum sem slíkum.“

Forsvarsmenn Icelandair vildu ekki veita fréttastofu viðtal í dag, forsvarsmenn Flugfreyjufélagsins báðust líka undan viðtali.