Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Svandís: Vonbrigði að þurfa að stíga til baka

30.07.2020 - 12:11
Mynd: RÚV / RÚV
Það eru ákveðin vonbrigði að stíga til baka og þetta er bakslag, segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Hún segir ákvörðun sína um að samþykkja tillögur sóttvarnalæknis um hertari sóttvarnaráðstafanir hér á landi ekki hafa verið erfiða enda hafi hún verið vel rökstudd.

„[Ákvörðunin] snýst um að grípa bara harkalega í handbremsuna núna þegar við erum komin á þennan stað að samfélagssmitum fer hratt fjölgandi. Og við stígum mjög ákveðið aftur niður í 100 og tökum tveggja metra regluna aftur upp,“ segir Svandís.

Spurð hvað hafi komið fyrir og hvers vegna þetta bakslag hafi orðið, segir Svandís það vera eilífa spurningu. „Við vitum alveg sjálf að við vorum farin að slaka mjög mikið á hér innanlands. Við vitum að það voru mögulega tilteknar gloppur á landamærunum. Svo það er ýmislegt sem við höfum verið að gera til að bæta og breyta. Við þurfum aftur að gæta að þessum einstaklingsbundnu smitvörnum. Við kunnum þetta allt saman en við þurfum bara að rifja það upp.“

Gengur best þegar við erum skynsöm

„Við viljum bara fyrst og fremst beina því til fólks að okkur hefur gengið best þegar við höfum verið skynsöm og þegar við höfum staðið saman,“ segir Svandís. Hún segir að fólk verði að gera það upp við sjálft sig hvort það leggi í ferðalög um helgina.

Reglurnar um greiðslur í sóttkví gilda áfram. Svandís segir að aðgerðirnar núna séu gerðar til þess að hægt sé að koma í veg fyrir víðtækari aðgerðir síðar. „Hvort að þessar tvær vikur sem eru framundan kalli á nýjar ráðstafanir er eitthvað sem er ekki komið á dagskrá,“ segir hún.

Spurð hvort að upplýsingarnar um heimkomusmitgát hafi verið nógu skýrar segir Svandís að þær hafi fyrst og fremst verið til leiðbeiningar. „Það þarf stöðugt að skerpa á þeim,“ segir hún.