Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ráðgátan um upprunastað jötunsteinanna leyst

30.07.2020 - 00:05
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Breskir vísindamenn telja sig hafa komist að því hvaðan jötunsteinar Stonehenge voru upphaflega sóttir. Stonehenge er ævafornt mannvirki í suðvesturhluta Englands. Talið er að bygging þess hafi hafist fyrir um 5000 árum.

Uppruni jötunsteinanna, sem eru stærri tegundir steinanna sem mannvirkið er reist úr, hefur hingað til verið á huldu. Nú hafa vísindamenn hins vegar komist að því að steinarnir voru sóttir til svæðis í grennd við Marlborough, í um 25 kílómetra fjarlægð frá Stonehenge. 

Vísindamennirnir komust að þessari niðurstöðu í kjölfar þess að broti, sem hafði verið tekið úr einum steinanna fyrir rúmum sextíu árum, var skilað. Fornleifafræðingar skoðuðu efnasamsetningu brotsins og báru hana saman við steina sömu tegundar í suðurhluta Englands. Í ljós kom að efnasamsetning jötunsteina Stonehenge er sú sama og á svæði rétt suður af Marlborough.