Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óvíst hvort eða hvernig Reykjavíkurmaraþonið verður

Mynd með færslu
Jess Draskau Petersson frá Danmörku var fyrst í mark í kvennaflokki. Mynd: Eva Björk Ægisdóttir - ÍBR
Óvíst er hvort verður af Reykjavíkurmaraþoninu í ár eða með hvaða móti hlaupið verður haldið. Þetta segir Frímann Ari Ferdinandsson framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur. Um 4.000 hafa nú skráð sig í hlaupið, þar af 800 erlendis frá og verði ekki af hlaupinu gæti það sett mikið strik í fjárhag fjölmargra góðgerðarfélaga.

Frímann var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Þar sagði hann að óvissan væri mikil vegna hugsanlegra skerðingar á fjöldatakmörkunum. Verið væri að skoða ýmsar útfærslur, meðal annars að skipta hlaupurum í hópa sem yrðu ræstir út á mismunandi tímum.  

„Við höfum verið að skoða allskonar sviðsmyndir. Við vorum lengi vel að hugsa og horfa til þess að það yrðu 2.000 manns. Það var það sem var búið að leggja til í minnisblaði hjá sóttvarnalækni en svo erum við búin að vera að horfa á 500, 1000 og nú vitum við ekki neitt. Óvissan er mikil en við erum tilbúin í allskonar útfærslur eftir því hvernig þetta þróast. En við verðum að sjá hvað gerist,“ sagði Frímann.

Yrði þátttakendum skipt í hópa myndi það hafa ýmsar skipulagsbreytingar í för með sér. „Þá þurfum við að fara að skoða með lögreglu og slökkviliði - getum við fengið að loka Vesturbænum allan daginn? Síðan er þetta spurning um sóttvarnir og annað.  Sem verður allt flóknara.“

Að mati Frímanns myndi það koma sér illa fyrir fjárhag fjölmargra góðgerðarfélaga yrði hlaupinu aflýst, en ekki sé hægt að útiloka að það gerist. „Við verðum bara að taka ábyrgð og bera ábyrgð. Við ætlum að reyna ef hægt er að halda eitthvert hlaup í hvaða formi sem það verður.“
 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir