„Nú gildir að standa saman og tækla þetta af ábyrð“

30.07.2020 - 11:36
Mynd: RÚV / RÚV
Ástæða þess Íslendingum tókst vel til við að ráða hemja kórónuveirufaraldurinn í vor er að gripið var til alvarlegra aðgerða snemma. Þess vegna þurfti ekki að grípa til víðtækra lokana eins og víða erlendis, sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fréttafundi ríkisstjórnarinnar í dag.

„Þetta er auðvitað hundfúlt en eitthvað sem við gátum búist við,“ sagði Víðir. „Nú gildir að standa saman og tækla þetta af ábyrð.“

Hertar samkomutakmarkanir taka gildi á hádegi á morgun, 31. júlí. Þá verður hámarksfjöldi fólks á sama stað 100 manns og tveggja metra reglan verður skylda á ný með fáeinum undantektum.

Það eru eðlileg viðbrögð að vera hrædd sagði Víðir og brýndi fyrir Íslendingum að halda sig heima ef minnsti grunur er um veikindi.

„Láttu taka hjá þér sýni. Ekki heilsast með handabandi, ekki faðmast, ekki vera að fara í hópa með fólki sem þú þekkir ekki ef þú ert í áhættuhópi. Ef þú færð boð í skimun: Mættu!“

„Handþvottur og sprittun gildir núna sem aldrei fyrr,“ sagði Víðir.

„Mig langar að beina orðum mínum til unga fólksins sem ætlaði að fara í útilegu og skemmta sér með vinum sínum og kunningjum um helgina. Við verðum að láta þetta bíða. Við höfum margoft sagt það: Sumarið 2020 er hið skrítnasta sumar. Við verðum að búa til öðruvísi minningar.“

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi