Neyðarstjórn borgarinnar fundar síðdegis

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Neyðarstjórn borgarinnar kemur saman til fundar síðdegis í dag til að bregðast við hertum sóttvarnaraðgerðum yfirvalda og áhrifum hennar á þjónustu borgarinnar. Fjöldatakmarkanir og tveggja metra regla hafa áhrif víða innan borgarinnar, meðal annars á heilbrigðisstofnanir, íbúakjarna, sundlaugar og söfn.

Hertar aðgerðir í tíu liðum vegna COVID-19 taka gildi á hádegi á morgun. Þær gilda að óbreyttu til 13. ágúst eru byggðar á tillögum sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt. Í þeim felst meðal annars að efla gæti þurft aðgerðir á landamærunum enn frekar, tveggja metra regla verður sett á og í mesta lagi mega hundrað manns koma saman.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, greinir frá því á Facebook að neyðarstjórnin fari yfir stöðuna síðdegis í dag.

Reglurnar hafa sérstaklega áhrif á heimsóknir til viðkvæmra hópa, svo sem þá sem búa á hjúkrunarheimilum og í sérstökum búsetuúrræðum. Þá er ljóst að stýra þarf aðgengi að sundlaugum og söfnum. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi