
Mun valda töluverðu tjóni
Segist Jóhannes treysta ferðaþjónustunni fullkomlega til að bregðast við hertum samkomutakmörkunum. „Ferðaþjónustan er búin að vera í framlínunni í þessum bardaga síðan snemma í vor og við þekkjum vel hvað við þurfum að gera. Það er þó ljóst að þetta setur töluvert strik í reikninginn og býr til töluverð vandamál sem þarf að takast þá aftur á við.“
Að mati Jóhannesar munu hertar aðgerðir nú ekki hvað síst hafa áhrif á veitingahúsa- og hótelrekstur, þessa jafnan stærstu ferðahelgi ársins.
„Það er ljóst að veitingahús munu þurfa að takmarka aðgengi þannig að ég vonast til að fólk sýni nú tillitsemi og skilning á aðstæðum þar. Það munu allir gera sitt besta og við vitum það frá því í vor að framlínufólkið okkar í ferðaþjónustunni það hefur tekið þessu með mikilli alvöru og er að reyna gera sitt besta og mun gera það áfram.“
Engu að síður sé ljóst að þetta muni valda töluverðu tjóni.