Lögregluþjón dreymir um að komast í kvenfélagastarf

Mynd: Jakob Birgisson / RÚV

Lögregluþjón dreymir um að komast í kvenfélagastarf

30.07.2020 - 12:49

Höfundar

Þorsteinn Davíð Stefánsson er 22 ára laganemi frá Reykjavík og starfar sem lögregluþjónn hjá lögreglunni á Ísafirði í sumar. Hann unir hag sínum vel á Ísafirði og kann vel við sig fyrir vestan.

Síðustu sumur hefur Þorsteinn Davíð dvalist að mestu leyti á landsbyggðinni og þykir honum kærkomið að geta gert það áfram í sumar við krefjandi og skemmtilegt starf. Jakob Birgisson rakst á Þorstein Davíð á rölti um bæinn þar sem hann var í göngueftirliti. „Ég er hér í göngueftirliti að fylgjast bæði með gangandi vegfarendum og hjólandi vegfarendum og ekki síst umferðinni. Ég reyni svona að leiðbeina fólki þegar við á og svo snýst þetta líka um að vera sýnilegur og taka fólk tali og heyra hvað er að gerast í bænum,“ segir lögregluþjónninn ungi.

Dreymir um að komast í kvenfélagastarf

Mörgum getur reynst erfitt að flytja frá Reykjavík til smærri bæja. Þorsteinn Davíð átti ekkert bakland á Ísafirði en leggur sig fram við að aðlagast samfélagi Ísfirðinga. „Viðbrigðin eru bæði náttúrulega fólgin í því að vera kominn út á land og ekki síður í því að ég þekki eiginlega engan, eða þekkti engan, áður en ég kom hingað á Ísafjörð. Ég á ekkert bakland hérna á Ísafirði. Það hefur svo sem líka verið ágætislexía að vera sjálfum sér nógur og reyna að finna sér eitthvað til dundurs. Ég hef farið í göngur með Ferðafélagi Ísafjarðar þar sem ég hef kynnst góðu fólki. Svo á ég mér þann draum að komast inn í kvenfélagastarf en það er víst ekkert mjög beysið á sumrin. En það kemur kannski síðar þegar maður flytur varanlega út á land,“ segir Þorsteinn Davíð.

En mega karlmenn taka þátt í starfi kvenfélaga?

„Ég svo sem veit það ekki, en ég mun freista þess einhvern tímann. Ég kann voða lítið fyrir mér í bakstri og svona en er hrifinn samt af þjóðlegum veitingum þannig að maður á margt eftir ólært í þessu og ég held það sé enginn staður betri til að nema þessi fræði heldur en kvenfélög úti á landi.“

„Nauðsynlegt að sekta fólk sem fer ekki eftir reglunum“

Þorsteini finnst ósköp skemmtilegt að sinna göngueftirliti á Ísafirði. Hann hefur mikinn áhuga á umferðinni og aðstoðar fólk eftir þörfum. „Það er mikill og góður bæjarbragur hérna á Ísafirði og það er gaman að rölta um. Ég hef sérstakan áhuga á mörgu í tengslum við umferðina. Ég get leiðbeint fólki um notkun dagljósabúnaðar og hnýtt í þá sem eru í símanum. Og sektað jafnvel ef svo ber undir. Það er svona það sem ég hef helst gaman af, sérstaklega á góðviðrisdögum eins og núna.“

Er virkilega gaman að sekta fólk?

„Það er ekki gaman að sekta fólk, en það er nauðsynlegt að sekta fólk sem fer ekki eftir reglunum. Það er nauðsynlegur hluti þó hann sé kannski ekki skemmtilegur.“

Hvorki tófusprengur né skylmingaþræll

Þorsteinn hefur nóg að gera og segir mikilvægt að starfsfólk lögreglunnar sé í ágætu formi. „Ég hef svolítið reynt að sinna ákveðinni líkamsrækt. Þeir sem mig þekkja vita að ég er hvorki tófusprengur né skylmingaþræll, en í þessu starfi reynir maður að halda sér ágætlega við.“

Þorsteinn Davíð fer meðal annars í sund og reynir eftir fremsta megni að halda í við félaga sína úr lögreglunni á líkamsræktaræfingum. „Ég er nú óttalegt blávatn í samanburði við þessi brýni sem eru með mér í lögreglunni. En maður reynir að halda sér við líkamlega og svo reynir maður að sinna andlegu hliðinni með því að fara í fjallgöngur eða fara á viðburði hérna í bænum. Svo hefur verið gestagangur hjá mér líka. Ég hef ferðast um Vestfirðina og nýtt mér það að ég er bíllaus alla jafna en gestir mínir hafa margir verið á bílum þannig að þá hef ég getað keyrt um embættið í öðrum erindagjörðum en embættiserindum. Það hefur verið skemmtilegt.“

Jakob Birgisson ræddi við Þorstein í Sumarsögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Nú verð ég drepin fyrir að tala illa um fólk“

Menningarefni

Djammaði í Amsterdam með eiturlyfjabarón sem var myrtur