Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gestum við embættistöku stórfækkað

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða þurfti forsætisráðuneytið að fækka mjög á listanum yfir gesti sem fá að vera viðstaddir embættistöku forseta Íslands á laugardag. Almenningur er hvattur til að fylgjast með athöfninni í sjónvarpinu.

Fyrir lá að embættistakan yrði með breyttu sniði vegna heimsfaraldursins, engin handabönd og ítrustu sóttvarna gætt. Þegar var búið að fækka gestum úr 300 niður í 80 en vegna nýrra tilmæla sóttvarnalæknis neyðist forsætisráðuneytið til að strika enn fleiri út. „Til þess að geta uppfyllt tveggja metra regluna sem nú hefur verið sett á og er brýnt fyrir fólki að fara eftir. Það gerir það að verkum að þátttakendur í athöfninni verða svona í kringum 25 í staðinn fyrir 80 manns,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins.

Vill samstöðu og seiglu í stað beiskju og blóraböggla

Guðni Th. Jóhannesson, forseti, greindi frá þessum breytingum á athöfninni á Facebook, hann hvatti fólk til að sýna áfram seiglu og samstöðu, vera hluta af lausninin en ekki vandanum. 

Meðal gesta við embættistökuna verða forsætisráðherra, fyrrum forsetar, biskup og formenn flokka. Meðal þeirra sem verða afboðaðir eru níu úr fjölskyldu forsetans, ríkislögreglustjóri, dómkirkjuprestar og ráðherrar aðrir en þeir sem gegna flokksformennsku.

Umgjörð athafnarinnar breytist líka töluvert. Það verður ekki hefðbundin helgistund í dómkirkjunni, biskup flytur þess í stað blessunarorð sín í þinginu. Þá munu forsetahjónin ekki koma út á svarli þinghússins til að heilsa fólki, eins og venjan býður. 

Almenningur er hvattur til þess að veifa forsetahjónunum úr stofunni heima í stað þess að flykkjast á Austurvöll. Rúv sýnir beint frá embættistökunni og hefst útsendingin kl. 15.20 á laugardag. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV