
Bæjarhátíðum víða aflýst
Í tilkynningunni frá Akureyrarbæ segir að í ljósi nýjustu frétta af útbreiðslu Covid-19 faraldursins á Íslandi verði hátíðinni og öllum viðburðum sem henni tengjast aflýst. Davíð Rúnar Gunnarsson, skipuleggjandi hátíðarinnar segir algjöran einhuga hafa verið um að aflýsa hátíðinni.
Einhugur um ákvörðunina
„Við áttum fund með lögreglunni á Akureyri og bæjaryfirvöldum í morgun og það var algjör einhugur um að taka enga áhættu í þessari uggvænlegu stöðu sem upp er komin. Við munum að sjálfsögðu fylgja fast eftir öllum fyrirmælum frá sóttvarnaryfirvöldum og þar með er einboðið að aflýsa fjölskylduhátíðinni Einni með öllu,“ segir Davíð Rúnar.
Þá hvetur Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri landsmenn alla til að taka málið alvarlega.
„Við viljum hvetja bæjarbúa sem og landsmenn alla til þess að taka stöðunni alvarlega og fylgja fyrirmælum í hvívetna. Allt annað væri einfaldlega óboðlegt í þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú er komin upp,“ segir Ásthildur.
Funda um næstu skref í Vestmannaeyjum
Þrátt fyrir að búið væri að aflýsa Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum stóð til að halda smærri viðburði á eyjunni um helgina. Samkvæmt upplýsingum frá Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra verður ákvörðun um framhaldið tekin eftir hádegi í dag.
Engar hátíðir á Selfossi, Borgarfirði og Ólafsfirði
Fjölskylduhátíð á Hótel Selfoss sem fyrirhuguð var um helgina hefur verið aflýst að mestu. Þar er þó stefnt að því að halda barnaskemmtun fyrir gesti hótelsins á sunnudaginn. Þá hefur hátíð sem áætlað var að halda á Borgarfirði eystra verið aflýst. Það sama á við um Berjadaga á Ólafsfirði.
Innipúkinn blásinn af
Skipuleggjendur Innipúkans í Reykjavík hafa tilkynnt að hátíðinni í ár verði aflýst. Í tilkynningu segir að frekari upplýsingar um hátíðina verði veittar síðar í dag.
Fréttin verður uppfærð