„Við eigum að hafa vísindaleg rök í forgrunni“

29.07.2020 - 15:40
Mynd: Eggert Jónsson / RÚV
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það fjarri lagi að kórónuveirufaraldurinn sé yfirstaðinn og fjölgun innanlandssmita sé mikið áhyggjuefni. Hann segir að öryggi og heilsa fólks eigi alltaf að vera í forgrunni og fylgja eigi vísindalegum rökum. 

„Við verðum að sjá hverju fram vindur næstu daga. Ef við fylgjumst með í nágrannalöndum okkar og í Evrópu og í Bandaríkjunum þá er svo fjarri lagi að þetta sé yfirstaðið og við sem samfélag verðum að sýna þá ábyrgð og þá samkennd sem við gerðum hér í mars og apríl,“ segir Halldór.

Til stóð að slaka á samkomubanni eftir verslunarmannahelgi en nú liggur fyrir að tilslökununum verður frestað. Til skoðunar er að herða aðgerðir gegn kórónuveirunni vegna innanlandssmita sem greinst hafa síðustu daga. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við fréttastofu í gær að hún útilokaði ekki að fækka öruggum löndum. Eins og er þurfa farþegar frá Noregi, Danmörku, Grænlandi, Færeyjum, Finnlandi og Þýskalandi hvorki að fara í sóttkví né skimun við komuna til Íslands.

Aðspurður hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir atvinnulífið að fækka öruggum löndum segir Halldór öryggi fólks og heilsu mestu máli skipta. „Ég held að við eigum að hafa vísindaleg rök í forgrunni ákvarðanatöku okkar og ég styð það að sjálfsögðu. Við sjáum að atvinnulífið um þessar mundir er mjög brothætt. Fjöldamargar atvinnugreinar eru ennþá í sárum eftir atburði vorsins og snemmsumars en það breytir því ekki að öryggi og heilsa fólks eiga alltaf að vera í forgrunni alls. Við verðum því að fylgjast vel með næstu daga því það gæti sannarlega brugðið til beggja átta,“ segir Halldór. 
 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi