Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Múlakvísl farin að grafa sundur veginn við Afréttisá

Múlakvíslá grefur í sundur veginn við Afréttisá.
 Mynd: Almannavarnir
Múlakvísl hefur verið að grafa í sundur veginn við Afréttisá, sem liggur upp í Þakgil. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Almannavarna sem segja tilkynningu hafa borist í gær. Rafleiðni hefur mælst í Múlakvísl undanfarið.

Múlakvísl hefur verið að grafa í sundur veginn við Afréttisá, sem liggur upp í Þakgil. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Almannavarna sem segja tilkynningu hafa borist í gær. Rafleiðni hefur mælst í Múlakvísl undanfarið.

Í kjölfarið fóru lögreglumenn frá Vík á vettvang ásamt starfsmönnum Vegagerðarinnar. Gerð var hjáleið á staðnum á meðan að viðgerð á veginum átti sér stað, en henni lauk um þrjúleytið í nótt samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Í dag verður svo hafist handa við að útbúa varnarvegg til að hindra frekari skemmdir.

Greint var frá því í síðustu viku að rafleiðni hefði aukist í ánni Múlakvísl, en það er til marks um að jarðhitavatn kemur fram undan Mýrdalsjökli og hefur brennisteinslykt fundist við ána.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er rafleiðnin nú tekin að lækka, en telst þó enn há og mælist enn gasútstreymi við Láguhvola. Eru ferðamenn því beðnir að gæta varúðar á svæðinu.