Gísli Rúnar Jónsson látinn

Mynd: aðsend / mynd

Gísli Rúnar Jónsson látinn

29.07.2020 - 13:21

Höfundar

Gísli Rúnar Jónsson, leikari, leikstjóri og handritshöfundur, lést á heimili sínu í gær, 67 ára að aldri.

„Með djúpri sorg tilkynnum við fjölskyldan að okkar ástkæri Gísli Rúnar Jónsson leikari, leikstjóri, handritshöfundur og þúsundþjalasmiður er látinn,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum Gísla Rúnars.

„Fjölskyldan syrgir kærleiksríkan og einstakan fjölskylduföður og þjóðardýrgrip.“

Gísli Rúnar fæddist 20. mars 1953. Hann var giftur Eddu Björgvinsdóttur leikkonu og eignuðust þau tvo syni. Þau skildu árið 2000. 

Gísli Rúnar varð þjóðþekktur fyrir Kaffibrúsakarlana árið 1972 þar sem hann lék á móti Júlíusi Brjánssyni. Kaffibrúsakarlarnir voru sýndir á RÚV við miklar vinsældir. Ásamt því gáfu þeir félagar út hljómplötu og ferðuðust um landið og skemmtu fólki. 

Gísli Rúnar kom víða við á ferli sínum sem leikari, í sjónvarpi, leikhúsi og kvikmyndum. Hann kom fram á mörgum plötum og lék í fjölda kvikmynda, meðal annars Stellu í orlofi. Þá kom hann margoft að gerð Áramótaskaupsins, sem leikari, handritshöfundur og leikstjóri. Gísli Rúnar átti einnig langan feril í leikhúsi þar sem hann starfaði í gegnum tíðina sem leikari, leikstjóri, leikskáld og þýðandi.

Meðal eftirminnilegustu verka Gísla eru Heilsubælið í Gervahverfi og Fastir liðir eins og venjulega, sem hann bæði skrifaði og leikstýrði. RÚV hefur í sumar endursýnt Fasta liði eins og venjulega. Hægt er að nálgast þættina hér