Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Flugfreyjur funda með lögfræðingum vegna endurráðninga

29.07.2020 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Bogi Ágústsson - RÚV
Icelandair sendi í gær og fyrradag bréf til hóps flugfreyja þar sem þeim var boðin endurráðning. Nokkur ólga er þó meðal flugfreyja vegna þess að fyrirtækið fór ekki aðeins eftir starfsaldri við endurráðningarnar, sem þær telja brjóta í bága við ákvæði þess efnis í kjarasamningi.

Berglind Kristófersdóttir, varaformaður Flugfreyjufélagsins, segir í samtali við fréttastofu að félagið fundi nú um málið með  lögfræðingum ASÍ annars vegar og Icelandair hins vegar. Ljóst sé að ekki hafi bara verið farið eftir starfsaldri við endurráðningarnar. Dæmi eru um að flugfreyjur með langan starfsaldur hafi ekki fengið ráðningu en að aðrar með styttri hefðu verið endurráðnar. Berglind segir að ákvæði sé í bæði gamla og nýja samningnum um að flugfreyjur með lengri starfsaldur gangi fyrir. 

Sjá einnig: Stórt verkefni að endurbyggja traust

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í fréttum RÚV á mánudag, eftir að nýr kjarasamningur var samþykktur, að fyrirhugað væri að endurráða um 200 flugfreyjur til að byrja með. Farið yrði eftir bæði starfsaldri og frammistöðu við ráðningarnar.