Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Farnir í Smuguna

29.07.2020 - 13:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenski makrílveiðiflotinn er allur farinn til veiða í Smugunni. Veiðivonin við Íslandsstrendur var orðin veik og því þarf að leita út fyrir landhelgi. Aðeins hefur veiðst um fjórðungur makrílkvótans.

Skipin héldu flest til makrílveiða í byrjun júlí sem er talsvert fyrr en síðustu ár og lofuðu góðu í upphafi. Svo fór  að halla 
undan fæti í veiðum innan lögsögunnar og að sögn útgerðanna er talsvert af síld í makríltorfunum. 

Því héldu skipin öll til veiða í Smugunni fyrir helgi. Þar eru fyrir rússnesk, grænlensk og norsk skip en þar er veiðivon meiri, þó að veiðarnar fari 
ekki af stað með neinum látum. Það munar um minna að þurfa að sækja aflann um lengi veg og dregur úr ferskleika aflans. Um sólarhrings sigling er frá Austfjörðum á veiðislóð í Smugunni.

„Það hefur verið minna af makríl hérna í okkar lögsögu heldur en seinustu ár. Við erum komnir miklu fyrr út í Smugu heldur en fyrri ár. Við höfum ekki byrjað þar fyrr en um miðjan ágúst. Það er ekki beint kraftur í þessu. “ segir Eyþór Harðarson,útgerðarstjóri Ísfélagsins í Vestmannaeyjum.

Makríllinn óútreiknanlegur

Svo virðist sem makríllin gangi ekki jafn vestarlega og síðustu ár. Heildarmakrílkvótinn er tæplega hundrað og sextíu þúsund tonn. 
Aðeins hefur veiðst um fjórðungur af þeim kvóta í sumar og því þarf að ganga vel í haust ef á að veiða allan kvótann. 
Áhrifa farsóttarinnar gætir á markaði eins og annars staðar en útgerðarmenn 
sem rætt var við í morgun eru vongóðir um að aflinn seljist og viðunandi verð fáist. 

„Áfram þarf fólk að borða, svo þetta er aðallega spurning um hvað fólk getur borgað fyrir“ segir Eyþór.