Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Engan langar að fara eins og er“

29.07.2020 - 16:00
Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV
Slökkt var á ofni Kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík í dag. Starfsemi í verksmiðjunni er þar með formlega hætt, í bili að minnsta kosti. Rúmenskir feðgar sem misstu vinnuna hjá fyrirtækinu segja mikla óvissu fram undan.

Áttatíu sagt upp

Um áttatíu var sagt upp hjá fyrirtækinu í lok júní. Ekki er vitað hversu lengi verksmiðjan verður lokuð en ástæðan er að sögn forsvarsmanna fyrst og fremst lágt heimsmarkaðsverð á kísilmálmi. 

Rekstur kísilversins hefur verið þungur. Í lok mars var gengið frá samkomulagi við lánveitendur og hluthafa félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu. Aðstæður á markaði voru erfiðar áður en kórónuveirufaraldurinn braust út en dregið hefur úr eftirspurn og verð lækkað mikið vegna hans, að sögn forsvarsmanna.

„Við ætlum bara að koma aftur og reyna að finna vinnu“

 

Talið er að um 40 fjölskyldur hafi flutt til Húsavíkur vegna starfa í verksmiðju PCC. Þar á meðal eru rúmensku feðgarnir Livio og Bogdan.

„Við misstum báðir vinnuna. pabbi minn er í viðhaldi og ég hef unnið í framleiðslunni. Móðir mín er einnig hjá okkur. Nú hyggjumst við öll fara í frí. Fara heim þar til annað starf býðst,“ segir Bogdan.

Hvað tekur við eftir það?

„Eftir það, ef ég á að vera hreinskilinn þá veit ég það ekki. Við ætlum bara að koma aftur og reyna að finna vinnu svo við getum búið hér áfram. Engan langar að fara eins og er.“

Fjölskyldan býr í leiguhúsnæði í eigu fyrirtækisins. Þau vonast þó til þess að halda húsnæðinu þrátt fyrir ástandið. Bogdan óttast að hverfið, sem er að mestu í eigu PCC, verði tómlegt næstu mánuði. 

„Allt þetta hér er í eigum PCC svo þetta verður líklega draugabær ef allir flytja á brott.“