Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Ekki rétt að úrin haldi utan um allar ferðir notenda“

29.07.2020 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Garminbúðin á Íslandi hefur sent yfirlýsingu til fjölmiðla vegna tölvuárásar sem tæknifyrirtækið Garmin varð fyrir í síðustu viku. Með yfirlýsingunni vill verslunin koma á framfæri upplýsingum um eðli Garmin-tækja og upplýsingasöfnun þeirra.

„Á meðan tölvukerfi Garmin lá niðri, söfnuðu heilsuúr og æfingatæki viðeigandi upplýsingum og þegar þau tengjast aftur Garmin Connect þá fyrst færast upplýsingarnar af tækinu og tapast gögnin því ekki. Garmin úr vista ekki staðsetningu notanda nema þegar um æfingu er að ræða og valið er að nota GPS á æfingunni. Það er því ekki rétt að úrin haldi utan um allar ferðir notenda allan daginn,“ segir í tilkynningunni. 

Garmin gagnast þeim sem vilja skrásetja hreyfingu og ferðalög, til dæmis hlaup, sundferðir, hjólreiðaferðir og fleira. Smáforritið Strava styðst við hugbúnað Garmin og því varð einnig rof á þjónustu þess í kjölfar tölvuárásarinnar.

Garmin gefur ekkert upp um lausnargjaldið

Þjónusta Garmin lá niðri í fimm daga í kjölfar árásarinnar og samskiptarásir fyrirtækisins lokuðust einnig. Notendur gátu því ekki haft samband við þjónustuver fyrirtækisins meðan á þjónustustöðvuninni stóð. Talið er að rússneskur hakkarahópur sem kallast Evil Corp standi á bak við árásina. Greint hefur verið frá því að tölvuþrjótarnir hafi tekið gögn Garmin í gíslingu og krafið fyrirtækið um 10 milljónir bandaríkjadala í lausnargjald. Garmin hefur þó ekki staðfest þetta og því ekki vitað hvort fyrirtækið hafi greitt lausnargjaldið eða ekki. Theodór R. Gíslason, netöryggissérfræðingur hjá Syndis, sagði í samtali við fréttastofu í gær að sér þætti sennilegt að gjaldið hafi verið greitt. 

Á Twitter spunnust miklar umræður um tölvuárásina. Sumir lýstu yfir gremju sinni yfir því að geta ekki skráð æfingar sínar, aðrir höfðu áhyggjur af persónuupplýsingum sínum og enn aðrir gagnrýndu lélegt samskiptaflæði Garmin í kjölfar árásarinnar. Garmin hefur lýst því yfir að ekkert bendi til þess að gögn notenda hafi tapast eða að átt hafi verið við þau af tölvuþrjótum. 

„Garmin er skráð á hlutabréfamarkaði og fylgir fremstu ráðleggingum í öryggismálum og lögum þar að lútandi. Fullyrðingar um að Garmin „sé með allt niður um sig“ dæma sig sjálf og þá sem halda slíku fram,“ segir í yfirlýsingu frá Garminbúðinni.