Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bæjarstjóri vill skýringar á lögreglustjóraflutningi

29.07.2020 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum segir að ef ástæðan fyrir áformum dómsmálaráðherra, um að flytja lögreglustjórann á Suðurnesjum til Vestmannaeyja, sé að hann valdi ekki starfinu, sé mjög sérstakt að setja hann í sama starf annars staðar. Óskað hafi verið eftir skýringum ráðherra, sem bað um frest

Samstarfsörðugleikar innan embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum hafa, sem kunnugt er, verið í fréttum að undanförnu. Fréttablaðið greinir frá því í dag að Ólafi Helga Kjartanssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum hafi verið tilkynnt formlega með bréfi að flutningur hans til Vestmannaeyja taki gildi strax um áramótin. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segist hafa óskað eftir upplýsingum frá dómsmálaráðherra.

„Þetta er afar sérkennileg staða og sérstök tíðindi og komu virkilega á óvart. Ef að ástæða fyrir flutningi úr embætti er að viðkomandi aðili veldur ekki starfinu, þá er mjög sérstakt að setja þann sama aðila í  sama starf annars staðar. Það hefur verið alveg klárt, og ég óskaði eftir upplýsingum frá ráðherra, og hún óskaði eftir smá svigrúmi til að fá að upplýsa okkur um það hvernig staðan er og hvers vegna þetta er svona. En ráðherranum er alveg ljóst að okkar skýlausa krafa er að þessi staða sé auglýst, eins og er réttast að gera.“

Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu.