
Ágreiningur um bjargráð vestanhafs
Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildarinnar fullyrðir í bréfi til flokksfélaga sinna að tillögur Repúblikana geri ekkert nema draga þjáningar milljóna fjölskyldna á langinn.
Tillögur þeirra gera ráð fyrir að trilljón eða milljón milljónum Bandaríkjadala verði varið til að blása lífi í efnahaginn en í vor lögðu Demókratar fram frumvarp sem hefði kostað þrefalda þá fjárhæð. Þeir eru gagnrýndir harðlega fyrir að ætla sér með því að ganga djarflega á fjármuni afkomenda núlifandi kynslóða.
Áætlun Repúblikana gerir ráð fyrir að greiðslur til atvinnulausra lækki nú um mánaðamótin úr 600 dölum á viku í 200, eða sem nemur ríflega 80 þúsund krónum niður í 27 þúsund. Það segjast Demókratar ekki geta sætt sig við.
Annar ásteytingarsteinn er ákvæði í tillögunum sem leyfir að þau fyrirtæki sem telja sig hafa verndað starfsfólk sitt fyrir veirunni séu frí frá ákveðinni ábyrgð að lögum. Jafnframt er gert ráð fyrir lánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í tillögum Repúblikana auk framlaga sem gera skólum kleift að hefja starfsemi að nýju.
Í bréfi sínu segir Pelosi að hún ásamt Chuck Schumer leiðtoga Demókrata í þinginu, muni funda með ríkisstjórninni síðar í dag. Hvergi er minnst á frekari viðræður við Repúblikana í þinginu enda bendir tónninn í bréfi hennar til að hún telji nánast útilokað að ná samkomulegi við þá.