Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Töpuðu 12,3 milljörðum á öðrum ársfjórðungi

28.07.2020 - 07:48
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair tapaði 12,3 milljörðum á öðrum ársfjórðungi samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri sem félagið skilaði til Kauphallarinnar í gær, ef miðað er við gengi dagsins í dag.

Tap félagsins á fyrri helmingi ársins eru tæpir 45 milljarðar króna, og tap upp á rúma 30 milljarða má rekja til áhrifa heimsfaraldursins. Flug Icelandair dróst saman um 97 prósent á ársfjórðungnum og farþegum fækkaði um 98 prósent. 

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar er haft eftir Boga Nils Boga­syni, for­stjóra Icelandair Group, að COVID-19 faraldurinn hafi haft gríðarleg áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins: „Þrátt fyrir að flug hafi legið nán­ast alveg niðri, eða ein­ungis þrjú pró­sent flug­á­ætl­unar okkar verið starf­rækt, lögðum við höf­uð­á­herslu á að tryggja lág­marks­flug­sam­göngur til og frá land­inu fyrir far­þega og frakt, bæði til Evr­ópu og Norður Amer­ík­u.“

Þá segir hann að gripið hafi verið til „erfiðra en nauðsynlegra aðgerða“ til að draga úr kostnaði, þar á meðal uppsagna og skipulagsbreytinga. 

Stefna á að ljúka viðræðum vegna útboðs í vikunni

Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir Boga að rekstur félagsins hafi gengið betur en hann hafi átt von á og sjóðsstaðan sé sterkari en búist var við. Hlutafjárútboð félagsins fer fram í ágúst og nú í vikunni binda stjórnendur þess vonir við að ljúka viðræðum við Boeing og lánardrottna. Hann segir félagið aðallega hafa verið í viðræðum við íslenska fjárfesta, þó það útiloki ekki að ræða við erlenda.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV