
Töpuðu 12,3 milljörðum á öðrum ársfjórðungi
Tap félagsins á fyrri helmingi ársins eru tæpir 45 milljarðar króna, og tap upp á rúma 30 milljarða má rekja til áhrifa heimsfaraldursins. Flug Icelandair dróst saman um 97 prósent á ársfjórðungnum og farþegum fækkaði um 98 prósent.
Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að COVID-19 faraldurinn hafi haft gríðarleg áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins: „Þrátt fyrir að flug hafi legið nánast alveg niðri, eða einungis þrjú prósent flugáætlunar okkar verið starfrækt, lögðum við höfuðáherslu á að tryggja lágmarksflugsamgöngur til og frá landinu fyrir farþega og frakt, bæði til Evrópu og Norður Ameríku.“
Þá segir hann að gripið hafi verið til „erfiðra en nauðsynlegra aðgerða“ til að draga úr kostnaði, þar á meðal uppsagna og skipulagsbreytinga.
Stefna á að ljúka viðræðum vegna útboðs í vikunni
Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir Boga að rekstur félagsins hafi gengið betur en hann hafi átt von á og sjóðsstaðan sé sterkari en búist var við. Hlutafjárútboð félagsins fer fram í ágúst og nú í vikunni binda stjórnendur þess vonir við að ljúka viðræðum við Boeing og lánardrottna. Hann segir félagið aðallega hafa verið í viðræðum við íslenska fjárfesta, þó það útiloki ekki að ræða við erlenda.