Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tilslökunum á samkomubanni frestað um tvær vikur

Mynd með færslu
 Mynd: picjumbo.com - CC0
Tilslökunum á samkomubanni og lengri opnunartími skemmtistaða sem áttu að taka gildi á þriðjudag í næstu viku verður frestað um tvær vikur til 18. ágúst. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í morgun í samræmi við tillögur sóttvarnayfirvalda vegna nýrra hópsmita kórónuveirunnar.

Sóttvarnayfirvöld sendu heilbrigðisráðherra minnisblað í gærkvöldi þar sem þetta var lagt til. Minnisblaðið og tillögurnar voru ræddar á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Reglur um 500 manna samkomur að hámarki og um opnunartíma spilasala og veitingastaða með vínveitingaleyfi til klukkan 23 verða því áfram í gildi.

Til stóð að rýmka þessar reglur á þriðjudaginn í næstu viku, 4. ágúst. Þá áttu 1.000 manns að mega koma saman og veitingastöðum átti að vera heimilt að hafa opið til miðnættis.