Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Spænsk yfirvöld segja aðgerðir Breta ósanngjarnar

epaselect epa08566755 Tourists drag their luggage through Catalonia square in Barcelona, Spain, 26 July 2020. A surge in coronavirus cases has caused reservation cancellations in the tourism sector as well as the closure of some hotels in Barcelona.  EPA-EFE/QUIQUE GARCIA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Bresk yfirvöld hafa fyrirskipað fjórtán daga sóttkví fyrir alla sem koma til landsins frá Spáni og ráðið fólki frá ferðum þangað. Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, segir ákvörðunina „ósanngjarna“.

Sánches heldur því fram í viðtali á spænsku sjónvarpsstöðinni Telecinco að ferðamönnum stafi minni hætta af COVID-19 faraldrinum á flestum svæðum á Spáni heldur en í Bretlandi. Hann segist  vonast til að bresk yfirvöld hverfi frá ákvörðuninni. Ný smit hafi einungis greinst á afmörkuðum svæðum á landinu og því fráleitt að sóttvarnarreglurnar gildi um allt landið. BBC greinir frá.

Nýgengni smita, þ.e. samanlagður fjöldi greindra smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, er 35,1 á Spáni en 14,7 í Bretlandi. Smitum á Spáni hefur fjölgað hratt upp á síðkastið í Katalóníu og í kringum Aragón. 

Bretar segjast harðir á því að ferðamenn frá meginlandi Spánar, og einnig Kanarí-eyjum og Balear-eyjum þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví. Breskar ferðaskrifstofur furða sig á því, ekki síst þar sem smit eru mun færri á eyjunum en á meginlandinu.