Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir Fold eina húsið sem standi skil á gjöldunum

28.07.2020 - 16:13
Mynd með færslu
 Mynd: Gallerí - Gallerí Fold
Ekki er rétt sem varaformaður SÍM heldur fram að Gallerí Fold sé meðal þeirra sem ekki standi skil á fylgiréttargjöldum. Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri Gallerís Foldar segir uppboðshúsið þvert á móti vera eina húsið sem standi skil á gjöldunum í dag.

Jóhann nefnir sem dæmi árabilið 2016-2018. „Þá vorum við að greiða yfir 98% af öllum gjöldum sem var skilað til Myndstefs á þessum tíma,“ segir hann. Einhver vanskil urðu árið eftir og var samið við Myndstef um þær greiðslur.

„2019 lendum við í smá vandræðum vegna málaferla sem að við stöndum í og urðum aðeins eftir á með nokkra mánuði af gjöldunum hjá Myndstef. Við sömdum um þær greiðslur og höfum staðið við greiðslur af þeim samningi síðan og öllum þeim upphæðum og sölu sem hefur farið í gegnum galleríið á þessu tímabili alveg til dagsins í dag. Þetta geta þeir hjá Myndstef staðfest, því það er allt á hreinu hjá okkur,“ segir Jóhann.

Þegar listaverk ganga endursölu á listamaðurinn rétt á greiðslu svo nefnds fylgiréttargjalds, sem nemur 10% af söluandvirði verksins fyrir þau verk sem seljast undir 3.000 evrum.

Dæmi um fyrirtæki sem skulda milljónir

Fylgiréttargjaldinu er ætlað að tryggja að listamaður njóti góðs af því hvernig verk hans eru verðlögð. Gjaldið eiga seljendur, eða milliliðir sem sjá um endursölu verka, að innheimta af kaupendum verkanna og greiða Myndstef, sem sér svo um að koma greiðslunni til viðkomandi listamanns.

Líkt og RÚV fjallaði um í gær er hins vegar nokkur misbrestur á að gjaldið sé greitt.

Aðalheiður Dögg Finnsdóttir Helland, framkvæmdastjóri Myndstefs, sagði í samtali við fréttastofu að Myndstef vissi af aðilum sem þekkja vel til fylgiréttargjaldsins, en eru ekki að innheimta og greiða það. Hún staðfestir að Fold sé ekki eitt þessara fyrirtækja.

„Því miður í mörgum tilvikum er mjög erfitt fyrir okkur hjá Myndstefi að fara á eftir þessum aðilum,“ sagði Aðalheiður um þá sem ekki greiða. Þá eru dæmi um að fyrirtæki skipti um kennitölu um leið og Myndstef hefur innheimtu.

Mörg mál eru í gangi hjá Myndstefi varðandi innheimtu á fylgiréttargjöldum og staðfestir Aðalheiður Dögg að dæmi séu um fyrirtæki sem skulda milljónir.

Oft það eina sem stendur eftir fyrir erfingjana

Sjálfur segist Jóhann þeirrar skoðunar að fylgiréttargjaldið sé af hinu góða. „Mér finnst þetta bara frábært og við erum mjög hlynnt þessum höfundaréttargjöldum,“ segir hann og kveður þetta oft vera það eina sem standi eftir oft á tíðum fyrir erfingja listamannsins.

„Því það eru auðvitað þeir sem kannski njóta þessar gjalda,“ bætir hann við og segir flesta umsýslu með myndlist sem fellur undir fylgiréttargjaldið tekur til vera myndlist eftir látna listamenn.

„Þetta er það eina sem stendur kannski eftir af ævistarfi listamanna, þannig að auðvitað viljum við að þetta sé innheimt og þessu sé skilað.“

Fold vilji þó að jafnt gangi yfir alla og uppboðshúsið sé ekki eitt um að skila gjaldinu. Jóhann nefnir sem dæmi að fylgiréttargjaldinu beri einnig að skila eftir góðgerðaruppboð líkt og þau sem haldin eru á vegum til að mynda Kiwanis- og Lions klúbba. Eins viti hann af einstaklingum sem stunda sölu á eldri myndlist hér á landi sem ekki eru að fara eftir reglunum.

Íslendingar borga 10% en Danir 5%

Þó Jóhann sé sáttur við að fylgiréttargjaldið sé innheimt vill hann engu að síður gjarnan sjá breytta útfærslu á því. „Til að mynda að þetta sé ekki reiknað í evrum, þetta mætti vera reiknað í íslenskum krónum. Það myndi auðvelda alla útreikninga,„ segir hann.

Eins sé fylgiréttargjaldið hærra á Íslandi en annars staðar. Danir til dæmis borga 5% á meðan að hér á landi er fylgiréttargjaldið 10%.

„Við erum í samkeppni við Dani. Bruun Rasmussen kemur hingað tvisvar á ári og er að selja íslensk listaverk og þeir selja þau samkvæmt dönskum lögum og innheimta bara 5%, á meðan ég sel samskonar listaverk eftir til að mynda Kjarval og þarf að innheimta 10%. Þannig að það er ekki alveg jöfn staða,“ segir Jóhann.