Rannsaka vinnuumhverfið í þætti Ellen DeGeneres

Mynd með færslu
 Mynd: The Ellen Show - YouTube

Rannsaka vinnuumhverfið í þætti Ellen DeGeneres

28.07.2020 - 13:55
Fjölmiðlafyrirtækið Warner Media hefur hafið rannsókn á vinnuumhverfinu á tökustað spjallþáttar Ellenar DeGeneres, The Ellen DeGeneres Show. Rannsóknin er gerð í kjölfar frásagna af slæmri reynslu starfsfólks af vinnustaðnum og meintu eitruðu andrúmslofti.

Samkvæmt heimildum Variety fékk starfsfólk þáttarins bréf í síðustu viku þar sem farið var yfir framkvæmd rannsóknarinnar. Mannauðsdeild Warner Media auk fulltrúa frá utanaðkomandi fyrirtæki taka viðtöl við núverandi og fyrrverandi starfsfólk um reynslu þeirra af vinnustaðnum. Ákveðið var að rannsaka málið eftir að greinar voru birtar þar sem fyrrverandi og núverandi starfsfólk sökuðu þáttinn, Ellen sjálfa, framleiðendur og yfirmenn um mismunun og slæma meðferð. 

Fyrr í mánuðinum birti fréttastofa Buzz Feed grein þar sem fyrrverandi starfsfólk lýsti því að hafa orðið fyrir kynþáttahatri. Þau hefðu oftar en ekki verið óttaslegin og kúguð á tökustað. Ellen hefur byggt arfleifð sína á orðunum „Be Kind“ en að sögn heimildarfólks Buzz Feed var það eitthvað sem einungis gilti meðan kveikt var á myndavélunum. Fólkið sem rætt var við hafði til að mynda verið rekið eftir að hafa tekið sér veikindaleyfi, farið í jarðarför ástvinar og ein var orðin svo þreytt á sífelldum athugasemdum um kynþátt hennar að hún gekk einfaldlega út. 

Flestir hafa kennt yfirframleiðendum og öðrum stjórnendum um eitrað umhverfi vinnustaðarins en segja þó að það þýði ekki að hægt sé að horfa á Ellen sem algjörlega ábyrgðarlausa. Hennar nafn sé, þegar allt kemur til alls, nátengt þættinum.

„Ef hún vill hafa sinn eigin þátt sem heitir eftir henni þá þarf hún að vera í betri tengslum við það sem er í gangi. Ég held að framleiðendurnir segi henni að allt gangi vel, allir séu ánægðir og hún trúi því bara. Það er hins vegar á hennar ábyrgð að ganga lengra en það,“ segir einn fyrrverandi starfsmaður. 

Ellen sjálf hefur átt undir högg að sækja undanfarið þá sérstaklega í kjölfar þess að hollenska YouTube stjarnan Nikkie Tutorials tjáði sig um reynslu sína af því að mæta í viðtal í þættinum. Hún hafði verið gestur hjá Ellen í janúar til að tala um þá ákvörðun sína að koma út úr skápnum sem trans í YouTube-myndbandi. 

Í mars ræddi hún svo reynslu sína í hollenskum spjallþætti, De Wereld Draait Door. Þar sagði hún við stjórnanda þáttarins að það hefði verið fallegt af honum að koma fyrir þáttinn og heilsa sér, Ellen hefði ekki gert það. Hún hefði þvert á móti verið frekar köld og fjarlæg. 

Hún tjáði sig svo enn frekar um málið í hollenska tímaritinu &C þar sem hún sagðist mögulega hafa verið barnaleg að halda að tekið yrði á móti henni með konfettí-sprengjum. Raunin hafði verið sú að pirraður starfsnemi, sem hafði líklegast unnið of mikið, bauð hana velkomna. Þá sagði hún frá því að þrátt fyrir að allir gestir þáttarins ættu að fá sérklósett hefði hún ekki haft aðgengi að salernisaðstöðu. Hún hefði ekki einu sinni mátt nota nálægt salerni því það hafði verið tekið frá fyrir Jonas-bræður. 

Nikkie er ekki sú eina sem hefur talað um þurrt viðmót Ellenar en í mars birti leikarinn og grínistinn Kevin T. Porter tíst á Twitter þar sem hann bað fólk um að lýsa reynslu sinni af spjallþáttarstjórnandanum sem hann lýsti sem einni af kvikindislegustu manneskjum í heimi. 

Það stóð ekki á viðbrögðunum og um 2700 svöruðu tísti Porter, einhverjir lýstu reynslu sinni af Ellen úr þjónustustörfum, aðrir sögðu sögur af fyrrverandi starfsfólki sem hefði til að mynda fengið þær skipanir að það mætti aldrei horfa í augun á henni eða heilsa henni að fyrra bragði. 

Ellen sjálf hefur ekki tjáð sig um rannsóknina eða athugasemdirnar um vinnuumhverfi þáttanna en yfirframleiðendur þáttarins Ed Glavin, Andy Lassner og Mary Connelly gáfu út yfirlýsingu í kjölfar þeirra ásakana sem birtust í grein fréttastofu Buzz Feed. Þar sögðust þau niðurbrotin yfir fréttum af því að starfsfólki hefði þótt andrúmsloftið neikvætt, það sé ekki það sem þátturinn standi fyrir eða stefni að að vera. Ábyrgðin á því sem gerist frá degi til dags sé algjörlega á þeirra herðum og að ásakanirnar verði teknar alvarlega.