Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ræða við ráðherra í dag um að herða aðgerðir

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Verið er að skoða hvort eigi að herða aðgerðir gegn kórónaveirunni hér á landi bæði innanlands og á landamærunum. Þetta kom fram á fundi Almannavarna. Ríkislögreglustjóri segir að verið sé að skoða hvort breyta eigi almannavarnastigi. Fundað verður með heilbrigðisráðherra síðar í dag.

Alma D Möller, landlæknir, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnarlæknis og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri voru á fundi Almannavarna.   

Ákveðið hafði verið, í síðustu viku, að hætta með daglega fundi Almannavarna vegna Covid-19 þegar sóttvarnir voru farnar að virka. Ný smit í samfélaginu hafa breytt þeirri stöðu.

Sigríður Björk ríkislögreglustjóri segir að verið sé að skoða hvort hækka eigi almannavarnarstig og Alma D Möller, landlæknir að verið sé að skoða hvort breyta eigi samfélagslegum aðgerðum.

Undir þetta tekur Kamilla, staðgengill sóttvarnalæknis. „Það er til umræðu að herða aðgerðir og það er þá bæði hér innanlands og mögulega á landamærunum. Er eitthvað sem við þurfum að breyta eða ekki og hvað þá og hvernig framkvæmum við það. Það verður fundur með heilbrigðisráðherra síðar í dag til að ræða það.“