Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Nær helmingur fylgjandi Borgarlínu

28.07.2020 - 06:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Tæplega helmingur svarenda í skoðanakönnun Zenter og Fréttablaðsins er hlynntur Borgarlínu, en tæpur þriðjungur segist mótfallinn henni. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Könnunin náði til fólks um land allt og var stuðningurinn langmestur í Reykjavík þar sem 57 prósent þeirra sem afstöðu tóku voru fylgjandi Borgarlínu en um fjórðungur mótfallinn.

Í Kópavogi og Hafnarfirði er um helmingur svarenda hlynntur framkvæmdinni og 20 - 25 prósent andvígur. Garðbæingar, Seltirningar og Mosfellingar eru meira efins og er andstaðan mest á Seltjarnarnesi þar sem sex af hverjum tíu segjast andsnúnir Borgarlínu. Þá var stuðningur minni á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu; konur eru hrifnari af Borgarlínu en karlar og yngra fólk hlynntara henni en þau sem eldri eru.

Borgarstjóri ánægður með stuðninginn

Þótt stuðningur við Borgarlínu hafi dregist lítið eitt saman frá því að síðast var spurt um þetta mál, í október í fyrra, segist Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ánægður með þann meðbyr sem verkefnið hefur. Í samtali við Fréttablaðið segir hann þetta „mikilvægt veganesti inn í næsta tímabil Borgarlínunnar sem er framkvæmdatímabil."