Mikið vatn er á götum Sanaa, höfuðborgar Jemen, eftir mikla úrkomu síðustu daga. Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugir hafa farist og margir misst heimili sín í flóðum í Jemen. Þá hafa tjöld í flóttamannabúðum skolast burt í hamförunum.
Fulltrúi Rauða krossins í Jemen segir þetta auka enn á þjáningar landsmanna, sem hafi mátt þola, stríðsátök, hungur, kóleru- og kórónuveirufaraldur og fleiri hörmungar.
Í suðurhluta landsins hafi 33.000 flóttamenn misst tjöld sín og eigur í flóðum. Í héruðunum Hajjah og Hodeida í vesturhluta landsins hafi minnst 23 farist undanfarinn sólarhring. Fólk sem nýlega hafi orðið að flýja stríðsátök á þessum slóðum sé nú einangrað og hafi ekki aðgang að brýnustu nauðsynjum.
Víða séu vatnsból menguð sem auki enn hættuna á alvarlegum sjúkdómum á borð við malaríu og beinbrunasótt. Kólera hefur blossað upp í átta héruðum Jemen frá áramótum og talið er að allt að 128.000 hafi veikst.