Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mála homma og lesbíur upp sem brjálæðinga

Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd

Mála homma og lesbíur upp sem brjálæðinga

28.07.2020 - 13:39

Höfundar

Nýafstaðnar forsetakosningar í Póllandi ollu hinsegin samfélaginu vonbrigðum. Jacob Volsky, sem er búsettur hér á landi, segir að stjórnmálamenn, sem þurfi óvin til að berjast gegn, geri aðför að hinsegin fólki sem taktík í kosningabaráttunni. Samkynhneigðir séu látnir líta út sem hættulegt fólk sem hafni pólskum hefðum og gildum.

Forsetakosningar í Póllandi kláruðust 13. júlí með næmum sigri sitjandi forseta, Andrzej Duda. Óhætt er að segja að úrslitin hafi valdið hinsegin samfélaginu vonbrigðum. Duda vill meina að hinseginleiki sé hugmyndafræði og þar með beinist aðförin ekki beint að fólki. Jacob Volsky, sem hefur verið búsettur hér á landi í þrjú ár, er ósammála því. Hann ræddi við Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur í Tengivagninum á Rás 1.

„Ég bjóst við þessum niðurstöðum, að þetta yrði naumt milli núverandi forseta og mótframbjóðanda hans, Rafal Trzaskowsky,“ segir Jacob. Hann segir að flokkurinn Lög og réttlæti, sem nú er í ríkisstjórn, hafi notað ákveðna taktík til að sigra.

„Þeir eru mjög áberandi í fjölmiðlum, því aðalfjölmiðillinn í Póllandi er í opinberri eigu og er dreift víða. Í tilfelli margra Pólvera er þetta eina sjónvarpsstöðin sem næst, svo hún er eina pólítíska sjónarhornið sem þeim er sýnt.“

Jacob segir það sjónarhorn ekki hlutlaust. „Í þessu tilfelli, þau eru að ljúga, og eru óhrædd við að halda þessu fram. Þau eru að ljúga. Þau þurfa óvin. Þau þurfa óvin til þess að þau geti barist gegn honum. Það er ákveðinn félagslegur klofningur í Póllandi.“

epa06106453 Polish President Andrzej Duda during a press conference in the Presidential Palace in Warsaw, Poland, 24 July 2017. President Duda said in a statement that he will veto Supreme Court and National Judiciary Council bills. Large protests have
Andrzej Duda, forseti Póllands, greinir frá ákvörðun sinni í morgun. Mynd: EPA
Andrzej Duda, forseti Póllands

Mála samkynhneigt fólk upp sem hættulegt

Jacob nefnir aðför að hinsegin fólki sem hluta af taktík í kosningabaráttunni. „Þau mála homma og lesbíur upp sem brjálæðinga, sem kunna ekki að hafa hemil á hvötum sínum, þau sýna upptökur frá gleðigöngum úti í heimi, en sýna bara ýktustu útgáfurnar og nota þær svo sem dæmi um hvernig samkynhneigðir haga sér.“

„Þetta er stjórnun með fölsun og fólkið sem sér þetta hefur engar aðrar upplýsingaveitur með öðrum sjónarhornum, svo það heldur að samkynhneigðir séu hættulegt fólk sem vill ráðast gegn pólskum hefðum og gildum.“

Stjórnmálamenn bera ábyrgð á klofningnum

Kosningaþátttaka í nýafstöðnum forsetakosningunum var 70 prósent og munurinn á frambjóðendum einungis tæp tvö prósent. Jacob segir að fólk hafi fundið fyrir hvata til að kjósa. Ljóst sé að samfélagið sé klofið, og í sumum tilfellum jafnvel fjölskyldur. Jacob telur að stjórnmálamenn beri mikla ábyrgð á þessum klofningi. Taktíkin hafi verið að tefla einu gegn öðru og útkoman er þessi.

Þá eigi kaþólska kirkjan í Póllandi einnig sinn þátt í ástandinu. Kaþólska kirkjan tók afstöðu með mótspyrnuhreyfingunni eftir seinni heimstyrjöldina á þeim tíma sem Pólland var kommúnískt ríki og háð rússneska heimsveldinu, útskýrir Jakob. Kirkjan hvatti fólk til að berjast gegn kommúnisma. Það leiddi til þess að kirkjan öðlaðist traust þjóðarinnar.

Traustið og samband þjóðarinnar við kirkjuna hélst eftir fall kommúnismans og eftir að Pólland varð lýðveldi. Prestar og biskupar hafa haldið stöðu sinni og fólk treystir því sem þeir segja, segir hann. Ákveðinn heilaþvottur eigi sér stað. Talað sé um „alvöru Pólverja“ og þar með hina sem ekki falla undir þá skilgreiningu. „Alvöru Pólverjar“ eigi þá við um þá sem sækja kirkju, trúa á Guð, eru gagnkynhneigðir og hvítir á hörund.

Mynd með færslu
 Mynd: ? - wikimedia

Pólverjar búsettir erlendis kusu breytingar

Vakið hefur athygli að Pólverjar búsettir erlendis kusu í stærri mæli Trzaskowsky, það er að segja breytingar. Það rennir hugsanlega stoðum undir tilgátu Jacobs, að aðgangur að mismunandi sjónarhornum og fjölbreyttu upplýsingaflæði hafi áhrif á pólítískar skoðanir og skortur þar á einnig.

Jacob bendir þó á að mikilvægt sé að falla ekki í þá gryfju að halda að pólskir innflytjendur séu einn einsleitur hópur. Pólskir innflytjendur séu af ólíkum toga, til dæmis séu sumir með kosningarétt þótt þeir hafi ekki búið í Póllandi. Hann nefnir pólska innflytjendur í Bandaríkjunum sem dæmi og segir að þeir kjósi yfirleitt íhaldið. Annars staðar, til dæmis í Bretlandi, kjósi pólskir innflytjendir yfirleitt vinstrisinnaðri flokkinn.

Fann fyrir frelsi þegar hann fékk að leiða kærastann

Jacob segir ástæður þess að fólk hafi farið af landi brott margvíslegar. Það sé því alls ekki víst að pólskir innflytjendur flytjist aftur til Póllands verði pólitískar breytingar á þar í landi. Sjálfur hefur hann ekki í hyggju að flytjast aftur til heimalandsins.

„Ég held að það sé ómögulegt. Ég veit ekki enn hvort ég muni búa á Íslandi það sem eftir er, en ég mun alveg örugglega ekki flytja aftur til Póllands. Ég er ekki öruggur þar. Mér líður ekki vel að þurfa stöðugt að halda aftur af mér.“

Það þurfi hann ekki að gera hér á landi. „Ég man hvað ég var hissa, og hvað ég var þakklátur, þegar ég gekk um götur Reykjavíkur með kærastanum mínum og við gátum leiðst. Ég var 25 ára og ég var gáttaður. Gagnkynhneigðum vinum mínum þótti eðlilegt að geta þetta en fyrir mér var þetta stórt, því í Póllandi hefði ég getað verið laminn fyrir þetta.“

Þetta, að leiða maka sinn, eitthvað sem flestir hér á landi taka ef til vill sem sjálfsögðum hlut, hafði mikil áhrif á Jacob. „Ég hugsaði, það er í lagi með mig eins og ég er, ég er ekki furðulegur, eins og þeir segja í sjónvarpinu og blöðunum, ég er ekki sjúkur eða andsetinn, ég er bara venjulegur náungi sem langar til að… og veistu, það er fyndið … því þegar þig langar til að taka í höndina á einhverjum og leiða hann þá finnurðu það, þú hugsar ekki svo mikið um það, en ég hafði alltaf hemil á mér, en þarna þá hugsaði ég: Ókei, ég má það. Ég fann bara frelsistilfinningu.“

Þessu frelsi, að taka í höndina á maka sínum á almannafæri, sem ekki er öllum gefið, er ein af ástæðunum fyrir því að Jacob vill ekki flytja aftur til heimalands síns. Frelsinu fylgir þó togstreita því hann gerir sér grein fyrir því að breytingar verða ekki af sjálfu sér.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Ég vil ekki standa frammi fyrir þessari togstreitu í Póllandi. Að þurfa að velta fyrir mér hvort ég ætti að kyssa einhvern eða hvort það sé illa séð. En á sama tíma vil ég að hlutirnir breytist svo ég vil að fólk í Póllandi venjist þessari sýn - að samkynja pör geti leiðst á götum úti en samt þyrfti margt að breytast í Póllandi til að ég gæti hugsað mér að flytjast aftur þangað.“

Staðan er afleiðing kerfisbundinnar hatursorðræðu

Jacob segir að staðan í Póllandi sé afleiðing kerfisbundinnar hatursorðræðu. Andrzej Duda, forseti Póllands, er meðal þeirra sem hefur viðhaft slíka hatursorðræðu í garð hinsegins fólks.

Svokölluð „hinseginlaus svæði“ eru meðal þess sem komið hefur til í valdatíð forsetans. Fjöldi pólskra smábæja og héraða vilja fá að vera það sem þau kalla „frjáls und­an hug­mynda­fræði hinseg­in­ fólks“. Yfirlýsing sem getur falið í sér alls kyns ólíka hluti, meðal annars að banna fræðslu í skólum um kynhneigð aðra en gagnkynhneigð.

Jacob lýsir því að fjölmiðill þar í landi hafi framleitt límmiða sem fólk gat límt á rúður bíla sinna eða heimila, eða í verslunarglugga, þar sem stóð „hinsegin frítt svæði.” Hann geti því ekki upplifað sig öruggan þar.

Jacob segist þó hafa góðar fréttir að færa. „Tveir dómstólar hafa nú dæmt þetta ólöglegt. Að þetta sé gegn stjórnarskránni. Við vissum það auðvitað en yfirvöld voru að reyna að halda því fram að þessu væri ekki beint gegn fólki heldur hugmyndafræði. Þetta er stefið: Við berjumst ekki gegn fólki heldur hugmyndafræði. En þegar þú sérð þetta fólk lamið á götum úti, þá er þetta ekki flókið. Þú ert ekki að horfa upp á ofbeldi gegn hugmyndafræði heldur fólki.“

Meðal þeirra sem halda því fram að hinseginleiki sé hugmyndafræði er forseti landsins. Jacob nefnir að forsetinn hafi látið þau orð falla fyrir kosningar að hinseginleiki væri hugmyndafræði skæðari mannkyninu en kommúnismi. „Svo ef við höfum í huga hversu illa kommúnismi lék Pólland þá er hann augljóslega að reyna að vekja upp gamla dára með þessu orðfæri,“ segir Jacob.

„En við þurfum að muna að þetta eru ekki bara orðin tóm, það eru einstaklingar sem þjást vegna þessara orða,“ bætir Jacob við. „Við fæðumst ekki hómófóbísk eða rasísk, við lærum þetta. Þetta er ekki hluti af erfðamengi okkar.“

 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Ósáttur við umfjöllun RÚV um stöðu hinsegin fólks

Stjórnmál

Pólverjar á Íslandi vildu ekki Duda sem forseta

Stjórnmál

Staða hinsegin fólks í Póllandi fer versnandi

Erlent

Vill að stjórnarskrá meini samkynhneigðum að ættleiða