Pólverjar búsettir erlendis kusu breytingar
Vakið hefur athygli að Pólverjar búsettir erlendis kusu í stærri mæli Trzaskowsky, það er að segja breytingar. Það rennir hugsanlega stoðum undir tilgátu Jacobs, að aðgangur að mismunandi sjónarhornum og fjölbreyttu upplýsingaflæði hafi áhrif á pólítískar skoðanir og skortur þar á einnig.
Jacob bendir þó á að mikilvægt sé að falla ekki í þá gryfju að halda að pólskir innflytjendur séu einn einsleitur hópur. Pólskir innflytjendur séu af ólíkum toga, til dæmis séu sumir með kosningarétt þótt þeir hafi ekki búið í Póllandi. Hann nefnir pólska innflytjendur í Bandaríkjunum sem dæmi og segir að þeir kjósi yfirleitt íhaldið. Annars staðar, til dæmis í Bretlandi, kjósi pólskir innflytjendir yfirleitt vinstrisinnaðri flokkinn.
Fann fyrir frelsi þegar hann fékk að leiða kærastann
Jacob segir ástæður þess að fólk hafi farið af landi brott margvíslegar. Það sé því alls ekki víst að pólskir innflytjendur flytjist aftur til Póllands verði pólitískar breytingar á þar í landi. Sjálfur hefur hann ekki í hyggju að flytjast aftur til heimalandsins.
„Ég held að það sé ómögulegt. Ég veit ekki enn hvort ég muni búa á Íslandi það sem eftir er, en ég mun alveg örugglega ekki flytja aftur til Póllands. Ég er ekki öruggur þar. Mér líður ekki vel að þurfa stöðugt að halda aftur af mér.“
Það þurfi hann ekki að gera hér á landi. „Ég man hvað ég var hissa, og hvað ég var þakklátur, þegar ég gekk um götur Reykjavíkur með kærastanum mínum og við gátum leiðst. Ég var 25 ára og ég var gáttaður. Gagnkynhneigðum vinum mínum þótti eðlilegt að geta þetta en fyrir mér var þetta stórt, því í Póllandi hefði ég getað verið laminn fyrir þetta.“
Þetta, að leiða maka sinn, eitthvað sem flestir hér á landi taka ef til vill sem sjálfsögðum hlut, hafði mikil áhrif á Jacob. „Ég hugsaði, það er í lagi með mig eins og ég er, ég er ekki furðulegur, eins og þeir segja í sjónvarpinu og blöðunum, ég er ekki sjúkur eða andsetinn, ég er bara venjulegur náungi sem langar til að… og veistu, það er fyndið … því þegar þig langar til að taka í höndina á einhverjum og leiða hann þá finnurðu það, þú hugsar ekki svo mikið um það, en ég hafði alltaf hemil á mér, en þarna þá hugsaði ég: Ókei, ég má það. Ég fann bara frelsistilfinningu.“
Þessu frelsi, að taka í höndina á maka sínum á almannafæri, sem ekki er öllum gefið, er ein af ástæðunum fyrir því að Jacob vill ekki flytja aftur til heimalands síns. Frelsinu fylgir þó togstreita því hann gerir sér grein fyrir því að breytingar verða ekki af sjálfu sér.