HVE skellir í lás vegna hópsýkingar upp á Skaga

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Heimsóknarbann hefur verið sett á hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands vegna mögulegrar hópsýkingar upp á Akranesi. Ásgeir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri hjá stofnuninni, segir þetta fyrst og fremst varúðarráðstöfun og að verðandi feðrum verði til að mynda leyft að koma með verðandi mæðrum. Starfsemin verður með svipuðum hætti og var þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst.

„Það verða ekki leyfðar heimsóknir nema í undantekningatilfellum,“ segir Ásgeir í samtali við fréttastofu.

Mennirnir sjö sem greinst hafa með kórónuveiruna og eru búsettir upp á Skaga voru að störfum á lóðinni við heilbrigðisstofnunina. Ásgeir segir að gengið hafi verið úr skugga um að þeir hafi ekki haft nein tengsl við húsið og „Þessi ákvörðun okkar er bara til vonar og vara.“ 

Mennirnir búa í tveimur íbúðum í bænum og voru, samkvæmt upplýsingum fréttastofu, á leiðinni í tveggja vikna frí þegar þeir voru settir í einangrun vegna COVID-19. Samkvæmt upplýsingum eru mennirnir allir við þokkalega heilsu og vel fylgst með líðan þeirra. 

Þórir Bergmundsson, framkvæmdastjóri lækninga og rekstrar hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands,  segir í samtali við fréttastofu að engar sýnatökur hafi verið teknar í dag en stofnuninni hafi borist fjölda fyrirspurna frá íbúum bæjarins um hvort nauðsynlegt sé að koma í sýnatöku. Hann segir að tekin verði sýni frá öllum þeim sem sýni einhver einkenni.

Hann segir að húsnæði heilbrigðisstofnunarinnar hafi verið læst og engin komist þar inn án þess að fara í gegnum afgreiðslu stofnunarinnar.

Hann segir jafnframt að vinnuveitandi mannsins, sem fyrstur greindist með veiruna, eigi hrós skilið fyrir að hafa drifið hann í sýnatöku. Þá eigi starfsmaðurinn sem tók á móti honum einnig skilið hrós fyrir að hafa ekki hikað við að taka sýnið þótt það hafi verið á laugardegi sem hafi þýtt meiri vinnu.

Alma Möller, landlæknir, sagði í kvöldfréttum RÚV að nú væri verið að bíða eftir niðurstöðum úr sýnatökum og raðgreiningu. Þær ættu að liggja fyrir í fyrramálið. Alma sat fund með heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúa sóttvarnalæknis og almannavörnum sem lauk síðdegis þar sem farið var yfir stöðuna.

Hópurinn mun hittast aftur í fyrramálið. Alma sagði að til greina kæmi að endurvekja tveggja metra regluna, herða samkomutakmarkanir og eftirlit á landamærunum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi