Ferðaþjónustan tapaði hundruðum milljarða dollara

28.07.2020 - 18:00
epa08321334 Scandinavian Airlines SAS aircrafts park on an empty runway at the Copenhagen Airport in Copenhagen, Denmark, 25 March 2020. About 4,000 employees from the nordic airline company SAS have agreed to have their pay cut down due to the coronavirus COVID-19 crisis. Many airlines around the world have cancelled their flights, some on all of their routes, as countries are taking increased measures, including cuting all the air traffic to stem the widespread of the Covid-19 disease.  EPA-EFE/MARTIN SYLVEST  DENMARK OUT
Þotur SAS standa í röðum á Kastrupflugvelli og bíða þess að fólk fari að ferðast á ný. Mynd: EPE-EFE - Ritzau-Scanpix
Tekjutap ferðaþjónustunnar í heiminum nam 320 milljörðum dollara frá janúarbyrjun til maíloka í ár. Ferðafólk kemur enn víða að lokuðum landamærum, þar á meðal í Kína og Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í gögnum sem Alþjóðaferðamálastofnunin sendi frá sér í dag. Þar segir að tapið hafi numið meira en þrefalt hærri upphæð en í fjármálakreppunni eftir bankahrunið 2009. Í maí voru túristar 98 prósentum færri en í sama mánuði í fyrra.

Þessar tölur segir Zurab Pololikashvili, yfirmaður Alþjóðaferðamálastofnunarinnar, að sýni hversu mikilvægt sé að fá hjól ferðaþjónustunnar til að snúast um leið og það verður óhætt vegna COVID-19 farsóttarinnar. Lífsafkoma milljóna karla og kvenna sem starfa í greininni velti á því. Við henni blasi þó umtalsverð áhætta. Svo kunni að fara að faraldurinn blossi upp að nýju í löndum þar sem hann hefur verið í rénun að undanförnu.

Ferðamálastofnunin spáði því í maí að samdrátturinn yrði sextíu til áttatíu prósent á þessu ári af völdum kórónuveirunnar. Vöxturinn nam fjórum prósentum í fyrra frá árinu 2018. Frakkland naut mestra vinsælda meðal ferðafólks. Þar á eftir komu Spánn og Bandaríkin.

Þessu tengt: Í spá sem IATA, Alþjóðasamband flugfélaga, sendi frá sér í dag segir að flugumferð verði ekki orðin jafn mikil og fyrir COVID-19 farsóttina fyrr en árið 2024. Ýmsir óvissuþættir geti þó skekkt spána svo sem hvenær þjóðir opni landamæri sín fyrir alþjóðlegri flugumferð.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi