Engar ákvarðanir teknar - funda aftur í fyrramálið

28.07.2020 - 17:59
Mynd með færslu
Frá upplýsingafundi Almannavarna í gær. Frá vinstri: Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis og Alma Möller landlæknir. Mynd: Lögreglan
Engar ákvarðanir voru teknar eftir fund almannavarna, sóttvarnalæknis, landlæknis og heilbrigðisráðherra sem lauk á sjötta tímanum. Fundað verður aftur á morgun. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, sagði á upplýsingafundi í dag að til skoðunar væri að herða aðgerðir vegna samfélagssmita.

24 eru nú í einangrun með virkt COVID 19 smit og hafa ekki verið fleiri síðan í byrjun maí.  Hópsýking virðist vera komin upp á Akranesi og Íslensk erfðagreining hefur verið fengin til að skima fyrir kórónuveirunni að nýju. 

Þá var ákveðið að fresta tilslökunum á samkomubanni um tvær vikur en til stóð að leyfa samkomur með þúsund manns og lengja opnunartíma skemmtistaða eftir verslunarmannahelgi.

Jafnframt er líklegt að haldnir verði upplýsingafundir en þeir voru daglega þegar faraldurinn náði hámarki og var síðan fækkað þegar tókst að ná tökum á veirunni. Stutt er síðan tilkynnt var að hlé yrði gert á þessum fundum um tveggja vikna skeið vegna þess árangurs sem hafði náðst. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi