Algjör samstaða í ríkisstjórn um að fresta tilslökunum

28.07.2020 - 11:27
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
„Ég held að það sé öllum ljóst að það er ástæða til að staldra við,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Hún féllst á tillögur sóttvarnalæknis um að fresta áður boðuðum tilslökunum um tvær vikur. Samkomubann og takmarkanir verða þess vegna óbreyttar til 18. ágúst.

„Við erum öll hugsi yfir því hversu mörg innanlandssmit hafa verið að greinst undanfarna daga og það þarf að komast fyrir þau,“ sagði Svandís eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Í gær eftir okkar samráð þá kom nýtt minnisblað frá honum þar sem kom fram að þessum breytingum yrði frestað um tvær vikur. Þetta er það minnisblað sem ég lagði fram á ríkisstjórnarfundi og ég fellst á tillögur sóttvarnalæknis.“

Svandís segir að algjör samstaða hafi verið um að samþykkja tillögur sóttvarnalæknis í ríkisstjórninni í dag.

Þrjú innanlandssmit til viðbótar við þau 21 sem sagt var frá í gær voru staðfest í dag. Nú eru 24 í einangrun hér á landi og 173 í sóttkví. Enginn er á sjúkrahúsi með COVID-19.

„Ég legg áherslu á að við þurfum öll að huga enn betur að okkar persónulegu smitvörnum, handþvotturinn, sprittunin og tveggja metra reglan er eitthvað sem við verðum aftur að setja efst á blað.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi