Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Yrði reiðarslag fyrir réttindabaráttu kvenna í Evrópu“

27.07.2020 - 21:57
epa08569158 Participants wear masks as they listen during a public reading of the Istanbul Convention against violence against women at the Market Square in Katowice, Poland, 27 July 2020. The protesters expressed their objection to the Polish government's intention to reject the convention.  EPA-EFE/ANDRZEJ GRYGIEL POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Það væri reiðarslag fyrir réttindabaráttu kvenna í Evrópu ef Pólland drægi sig úr Istanbúlsáttmálanum, segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður og fyrrverandi formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsins. Það sé þó ekki víst að af þessari afsögn verði, þó dómsmálaráðherrann hafi lagt það til.

Dómsmálaráðherra Póllands lýsti því yfir fyrir helgi að ráðuneytið myndi leggja til að landið segði sig frá Istanbúlsamningnum þar sem hann innihéldi skaðlegar hugmyndir um málefni kynjanna. Þessu var mótmælt víða í Póllandi um helgina.

Samningurinn, sem 39 Evrópulönd hafa undirritað, skyldar aðildarlöndin til ákveðinna ráðstafana til að sporna við ofbeldi gegn konum, og tryggir fórnarlömbum ýmis réttindi, meðal annars varðandi læknis- og lögfræðiaðstoð. 

Þórhildur Sunna segir þetta alvarlegt. „Ef þetta verður að veruleika er það reiðarslag fyrir réttindabaráttu kvenna í heimsálfunni, í Evrópu.“

Hún segist hafa heyrt frá pólskum Evrópuráðsmönnum að þetta útspil sé í raun hluti af pólskri innanhússpólitík. „Það er ekki alveg öruggt hversu mikil alvara er að baki þessu. Ég held að þetta sé ekki búið að fara í gegnum pólsku ríkisstjórnina. Það á eftir að taka ýmis stór skref áður en þetta gerist, þetta er líka töluvert ferli.“

Þá bendir Þórhildur Sunna á að Marija Pejcinovic Buric, framkvæmdastjóri Evrópuráðsþingsins, sem hefur barist fyrir framgangi samningsins, muni líka gera sitt til að fá Pólverja ofan af þessu. Úrsagnarferlið taki töluverðan tíma.

„Stjórnvöld í Póllandi hafa þá einhvern umhugsunarfrest um hvort þau vilji virkilega stíga þetta skref, að víkja frá skuldbindingum sem hafa það eina hlutverk að vinna gegn ofbeldi gegn konum, kynbundnu ofbeldi, kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi. Það er náttúrulega mjög sorglegt ef það eru fyrirætlanir Evrópuríkis á þessum dögum.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV