Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Veitingastaðir gefi upp fjölda hitaeininga

27.07.2020 - 11:50
epaselect epa07311280 Former British Foreign Secretary Boris Johnson enters 10 Downing Street in London, Britain, 23 January 2019. British Prime Minister Theresa May has presented her Plan B for Brexit to parliament and Parliamentarians will vote on her new Brexit deal on 29 January 2019.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Veitingastaðir í Bretlandi þurfa að gefa upp fjölda hitaeininga í réttum á matseðlum, samkvæmt nýrri aðgerðaáætlun bresku ríkisstjórnarinnar gegn offitu.

Meðal annarra aðgerða sem ríkisstjórnin vill ráðast í er bann við því að óhollusta fylgi í kaupbæti með hollum mat í verslunum, og bann við sjónvarpsauglýsingum um skyndibita eftir klukkan 9 á kvöldin. Þá hefur einnig verið rætt um bann við að stilla upp sætindum við afgreiðsluborð verslana. AFP fréttastofan greinir frá.

Aðgerðirnar tengjast kórónuveirufaraldrinum, enda hafa nánast átta prósent mjög veikra COVID-19 sjúklinga í Bretlandi verið skilgreindir í flokknum „sjúklega offeitir“. Aðeins þrjú prósent bresku þjóðarinnar tilheyra þeim flokki.

Samhliða kynningu aðgerðaáætlunarinnar birti forsætisráðherrann Boris Johnson færslu á Twitter með myndskeiði þar sem hann gengur um með hundinn sinn og ræðir eigin baráttu við aukakílóin. Boris var sjálfur lagður inn á sjúkrahús í vor eftir að hafa smitast af kórónuveirunni.