
Vara ferðamenn við að dveljast nærri Múlakvísl
Í morgun urðu tveir jarðskjálftar nyrst í Kötluöskju í Mýrdalsjökli. Elísabet útilokar ekki að tengsl séu milli jarðskjálftavirkninnar og aukinnar rafleiðni í Múlakvísl. Hún segir að yfirleitt aukist rafleiðni í ánni á sumrin og það sama eigi við um jarðskjálftavirkni í Kötlu. Rafleiðnin sé meiri í sumar en í fyrra en nálægt því sem var 2018. Allt sé þó innan eðlilegra marka og ekki eru nein ummerki um gosóróa í Kötlu.

Elísabet segir að jarðhitavatn hafi byrjað að leka undan Kötlu þann 17. júlí. Í kjölfarið byrjaði rafleiðnin að aukast. Hún segir að eins og er sé ekkert sem bendi til þess að hlaup sé í vændum en vel er fylgst með hækkun vatnsyfirborðs og rafleiðni í ánni. Elísabet telur að rafleiðni í ánni verði sennilega há eitthvað áfram, hugsanlega í nokkrar vikur.
Ferðamenn eru beðnir um að sýna aðgát nærri upptökum árinnar þar sem styrkur jarðhitagass getur farið yfir heilsumörk. Elísabet varar fólk við að dveljast við Múlakvísl að óþörfu og alls ekki er ráðlegt að tjalda á svæðinu.