Lögreglan á Suðurnesjum handtók þrjá einstaklinga með fíkniefni í fórum sínum á föstudag. Tveir þeirra eru grunaðir um fíkniefnasölu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umdæminu.
Í húsnæði eins þeirra fannst talsvert magn af kannabisefnum, lyfseðilsskyld lyf og umtalsvert magn fjármuna. Lagt var hald á fjármunina en talið er að þeir séu ágóði fíkniefnasölu.
Annar sem var handtekinn er grunaður um fíkniefnaakstur. Hann var ekki með ökuréttindi og hafði falið kannabisefni í hurðarkarmi bifreiðarinnar sem hann ók. Í tilkynningunni segir að lögregla hafi ítrekað haft afskipti af manninum. Þriðji maðurinn sem var handtekinn var með allnokkuð af kannabisefnum í sinni vörslu.