Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja enga þörf á því að sendiherrar gangi um vopnaðir

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Formaður og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis eru sammála um að ekki komi til greina að veita erlendum sendiherrum heimild til að bera vopn sér til varnar. Þá virðist ekkert benda til þess að þörf sé á vopnuðum vörðum í sendiráðum hér. 

Sagður vilja ganga um með byssu

Í gær greindi bandaríska fréttastofan CBS frá því að Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, teldi öryggi sínu ógnað hér á landi, hann vildi fá að bera vopn, fá vopnaða fylgd og skothelda bifreið. Þetta sé vegna þess að hann sé gyðingur. 

Formleg beiðni um að ráða öryggisvörð

Ríkislögreglustjóri segir að um miðjan júlí hafi embættinu borist formleg beiðni frá bandaríska sendiráðinu, þess efnis að fá að ráða vopnaðan öryggisvörð. Beiðnin hafi borist í gegnum dómsmálaráðuneytið, eða eðlilega boðleið. Það mál sé því til skoðunar hjá embættinu.
Stjórnvöldum hefur, samkvæmt heimildum fréttastofu, ekki borist nein formleg beiðni sem lýtur að því að sendiherrann sjálfur fái að bera vopn sér til varnar. 

Telja ekki koma til greina að sendiherrar beri vopn

Málið er ekki komið inn á borð utanríkismálanefndar Alþingis en forsvarsmenn nefndarinnar telja almennt ekki koma til greina að veita erlendum sendiherrum heimild til þess að ganga um með byssu í vasanum. Jafnvel þó þeir telji sér ógnað. „Ég held það sé fullkomin samstaða um það í þinginu og þjóðfélaginu öllu að við erum ekki að fara að breyta reglum sem lúta að almennum vopnaburði í þá veru að rýmka þær,“ segir Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokks. Það sé hvorki þörf á slíkum breytingum né stemmning fyrir þeim. 

Hún segir eðlismun á því að erlendur diplómati fái heimild til að bera vopn að staðaldri og því þegar gefið er út sérstakt leyfi til að vopnaðir verðir geti fylgt erlendum gestum sem eru hér í nokkurra daga heimsókn. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrsti varaformaður utanríkismálanefndar og þingmaður Vinstri grænna, er líka mótfallin því að sendiherrar fái að bera vopn. „Mér finnst það ekki persónulega vegna þess að við búum í einu öruggasta ríki í heimi, en þetta er líka allt byggt á hættumati ríkislögreglustjóra og eftir þeim leikreglum verðum við að fara en ekki dyntum og duttlungum persóna sem hér eru í forsvari fyrir erlend ríki.“ Hún segir að sendiherranum væri nær að verja tíma sínum í annað, til dæmis að miðla upplýsingum til stjórnvalda í Bandaríkjunum um hvernig íslensk stjórnvöld hafi tekist á við kórónuveirufaraldurinn. 

Lögreglunnar að meta stöðuna

Sigríður og Rósa Björk sjá heldur ekki ástæðu til þess að vopnaðir verðir standi vaktina við sendiráð hér. „En að sjálfsögðu þarf að endurskoða hættumat ef einhverjar alvarlegar hættur steðja að fulltrúum erlendra ríkja hér á landi, sem hefur ekki verið raunin hingað til,“ segir Rósa Björk. 

„Það er þá í rauninni lögreglunnar að svara því,“ segir Sigríður.  

Stjórnvöld hafa ekki veitt upplýsingar um hvort sendiherranum hafi borist persónulegar hótanir en samkvæmt nýjasta hættumati Ríkislögreglustjóra eru engar vísbendingar um að hryðjuverka- eða öfgahópar starfi hér. Fréttamaður CBS, Christina Ruffini, sagði í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni í dag að ósk sendiherrans skyti skökku við því Ísland væri eitt öruggasta ríki heims.