Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Slæmur utanvegaakstur á Snæfellsöræfum

27.07.2020 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Ökumenn ollu miklum skemmdum á Snæfellsöræfum í síðustu viku þegar þeir óku utan vegslóða. Af myndum af vettvangi má ráða að skemmdarverkin hafi verið unnin af ásetningi. Landvörður telur að það taki áratugi fyrir landið að jafna sig.

Vegslóðinn liggur frá Kárahnjúkavegi við Sandá austan Sauðafells og er innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Arinbjörn Þorbjörnsson átti leið hjá á miðvikudaginn og varð þá var við skemmdarverkin.

„Þar eru mjög ljót sár á yfirborði og þetta er meira eins og ásetningur sko, þetta er enginn gáleysiss utanvegaakstur. Þetta eru um hundrað fermetra svæði sem er búið að tortíma, semsagt yfirborði svæðisins,“ segir Arinbjörn.
 

Mynd með færslu

 

Hann segir að líklega hafi torfærubílar eða fjórhjól verið þarna á ferð en ekki sé gott að segja til um hversu mörg. Ekki er vitað hverjir voru að verki. Meðal annars var spólað í hringi utan vegslóðans. Förin eru dýpst um tuttugu sentímetrar. Lögreglunni á Austurlandi hefur ekki borist tilkynning um verknaðinn og Umhverfisstofnun ekki heldur. Þuríður Skarphéðinsdóttir, landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði, fór ásamt fleirum á staðinn um helgina til að raka yfir förin. 

„Þessi för verða líklega þarna um ókomin ár, eða jafnvel áratugi. En við reynum að laga þetta eftir fremstu getu.“ segir Þuríður.

Þuríður hvetur fólk sem hyggst halda á fjöll til að kynna sér akstursleiðir í Gestastofum um allt land og leita upplýsinga hjá landvörðum. Utanvegaakstur er með öllu óheimill nema með sérstöku leyfi. 

 

Mynd með færslu
Mynd með færslu