Gerð fyrri tölvuleiksins, Hellblade: Senua’s Sacrifice, var erfið og og tók langan tíma, segir Tameem Antoniades, leikjahönnuður og einn stofnenda Ninja Theory, í myndbandi frá framleiðandanum. Að því ferli loknu þurfti hann því frí og ákvað meðal annars að ferðast um Ísland. Það var þá sem hugmyndin að framhaldi leiksins fæddist.
Í framhaldinu sneri hann aftur til Íslands með framleiðsluteymi í för með sér. Í samstarfi við Saga film heimsóttu framleiðendur leiksins um fjörutíu staði á Íslandi á tveimur vikum. Þau landsvæði sem talin voru henta söguþræði leiksins voru í kjölfarið skönnuð og útfærð á stafrænt form fyrir tölvuleikinn. Þá fóru hljóðupptökur og hljóðvinnsla fram í íslenskri náttúru.
Með þessari nálgun á framleiðslu leiksins leitast Antoniades við að gera leikjaheim Hellblade II sem raunverulegastan. Allt í leiknum á að byggjast á einhverju sönnu og ekta, hvort sem það er seytlið í lækjarsprænu, hljóðin í skóginum, birtan, skýin eða landslagið.
Tölvuleikurinn Senua’s Saga: Hellblade II var kynntur til sögunnar í fyrra og er væntanlegur seint á árinu. Fyrri leikurinn, Hellblade: Senua’s Sacrifice, hlaut lof fyrir framúrskarandi leikjahönnun, segir í grein vefmiðilsins Nörd norðursins, sem greindi fyrst íslenskra miðla frá.