Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Pútín boðar öflugri og fullkomnari kjarnavopn flotans

27.07.2020 - 05:32
epa08566559 Russian President Vladimir Putin attends the 'Russia Navy Day' parade in St. Petersburg, Russia, 26 July 2020.  EPA-EFE/ALEXEI DRUZHININ / SPUTNIK / KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Rússneski flotinn verður brátt vopnaður fullkomnari og hraðfleygari kjarnorkuflaugum en hingað til og kafbátar flotans verða búnir kjarnorkudrónum. Vladimír Pútín greindi frá þessu þegar hann ávarpaði árlega hersýningu flotans í Sankti Pétursborg, þar sem öflugustu herskip, kjarnorkukafbátar og herþotur flotans eru í öndvegi. Þá sagði forsetinn að flotinn fengi 40 ný skip til umráða á þessu ári.

Fimmfaldur hljóðhraði og háþróuð tundurskeyti

Kjarnorkuflaugarnar eru af gerðinni Tsirkon. Þær ná rúmlega fimmföldum hljóðhraða og hægt er að skjóta þeim á loft frá stærri herskipum. Kjarnorkudrónarnir sem svo eru kallaðir eru af Póseidon-gerð, og eru í raun aðeins margfalt öflugri, hraðskreiðari og „snjallari" útgáfa af því sem löngum hefur kallast tundurskeyti.

Pútín, sem hefur ítrekað lýst sig mótfallinn nýju vopnakapphlaupi, sagði ekki hvenær flotinn fengi þessi nýju og öflugu vopn til umráða, en gaf í skyn að þess væri ekki langt að bíða. „Víðtæk notkun háþróaðrar tölvutækni sem á sér engan sinn líka í heiminum, þar á meðal árásarkerfi byggt á hljóðfráum flaugum og neðansjávardrónum, mun færa [rússneska] flotanum yfirburði og aukinn bardagamátt," sagði forsetinn.

Í tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu, sem birt var í rússneskum fjölmiðlum í tengslum við flotasýninguna, segir að prófanir séu hafnar á nýjum kafbáti, Belgorod, þeim fyrsta sem getur skotið Póseidon-drónunum. Þær gangi vel, rétt eins og prófanirnar á Póseidon-kerfinu, sem sé nánast fullþróað.