Óvænt plata Taylor Swift fljót að setja met

Mynd með færslu
 Mynd: Taylor Swift - YouTube

Óvænt plata Taylor Swift fljót að setja met

27.07.2020 - 14:30
Síðastliðinn föstudag gaf söngkonan Taylor Swift óvænt út plötuna folklore. Platan er áttunda stúdíó plata söngkonunnar og var ekki lengi að setja nokkur met og fá aðdáendur til að velta fyrir sér földum skilaboðum.

Platan kom út 24. júlí og náði samdægurs rúmum 80 milljónum streyma á streymisveitunni Spotify. Swift setti þar með met í sögu veitunnar fyrir flestan fjölda streyma hjá tónlistarkonu fyrsta daginn eftir útgáfu. Þar tók hún fram úr söngkonunni Ariönu Grande og plötu hennar Thank U, Next sem var streymt 70,2 milljón sinnum þegar hún kom út árið 2019. 

folklore smellti sér sömuleiðis í efsta sætið fyrir stærstu streymisútgáfu ársins 2020 og það með talsverðum mun. Fyrir hafði plata rapparans Juice WRLD, Legends Never Die, safnað 73 milljónum streyma á fyrsta deginum eftir útgáfu en 80 milljónir Swift skelltu Juice WRLD í annað sætið. 

Ólíkt öðrum plötum Swift sem hafa komið út eftir mikla uppbyggingu, leyndar vísbendingar og annan hamagang, kom folklore út öllum að óvörum en hún tilkynnti útgáfuna aðeins tæpum 12 klukkutímum áður en platan varð aðgengileg á streymisveitum. Í tilkynningunni á Instagram segir Swift að fæst af því sem hún hefði skipulagt fyrir sumarið hefði endað á því að gerast en hins vegar hefði eitt sem hún hafði ekki skipulagt orðið að veruleika, áttunda stúdíó platan hennar. 

Swift segist hafa samið og tekið tónlistina á plötuna upp í einangrun en þrátt fyrir það fengið að vinna með sumum af tónlistarhetjunum í sínu lífi, þar á meðal Aaron Dessner og Bon Iver. Hún bætir því við að fyrir atburði þessa árs hefði hún líklegast ofhugsað útgáfu plötunnar þannig að hún kæmi út á hinum „fullkomna tíma“. Tímarnir sem við lifum í dag hafi hins vegar minnt hana á að ekkert er öruggt og hafi maður búið eitthvað til sem maður elskar ætti maður að sýna heiminum það.

Platan hefur vakið mikla lukku hjá aðdáendum sem hafa reynt að lesa í texta laganna til að finna þar falinn boðskap. Einhverjir telja til dæmis næsta víst að Swift hafi opinberað nafn þriðju dóttur leikaranna Blake Lively og Ryan Reynolds í laginu Betty. Þar syngur Swift um Inez og James sem eru einmitt nöfn tveggja eldri dætra Lively og Reynolds.

Þriðja dóttir þeirra fæddist í október á síðasta ári og nafn hennar aldrei verið gert opinbert, Lively og Swift eru hins vegar mjög góðar vinkonur og því telja margir að hún heiti sannarlega Betty og að Swift hafi fengið leyfi fyrir því að opinbera nafnið með laginu. Mynd sem Lively birti í sögum á Instagram hefur svo ýtt enn frekar undir orðróminn en þar þakkar hún Swift fyrir plötuna og spyr hvort hún megi klifra ofaní píanó með henni og búa í plötunni. 

Tengdar fréttir

Taylor Swift á tvífara í heimabæ sínum

Tónlist

Taylor Swift óþekkjanleg í gervi karlmanns

Tækni og vísindi

Taylor Swift og bottinn sem varð nasisti