Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Malbikað á Selfossi og nágrenni

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Búast má við töfum á umferð á þjóðvegi eitt í grennd við Selfoss næstu daga. Malbikunarframkvæmdir hefjast þar í dag og standa yfir fram eftir vikunni.

Annars vegar er verið að malbika vegkaflann á milli Hveragerðiss og Selfoss. Veginum verður alveg lokað og verður sett upp hjáleið um Eyrabakkaveg. Viðeigandi merkingar og hjáleiðir verða settar upp. Þessar framkvæmdir hefjast klukkan 19 í kvöld og standa til klukkan sex í fyrramálið í báðar áttir.

Þá á að halda áfram að malbika sama vegkafla en aðeins til austurs. Lokað verður fyrir umferð á leið austur og verður hjáleið um Eyrabakkaveg. Umferð á leið vestur ekur meðfram vinnusvæði á þeirri akrein sem ekki er verið að malbika. Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Innanbæjar á Selfossi eru einnig lokanir vegna framkvæmda á vegamótum Austurvegar og Rauðholts, en þjóðvegur eitt liggur í gegnum Austurveg á Selfossi.  Stærri bílum er beint um hjáleið um Fossheiði og Langholt en fólksbifreiðum um Reynivelli, Engjaveg og Langholt.  Framkvæmdir eru hafnar og á að ljúka á miðvikudag samkvæmt áætlun. 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV