Leit stendur enn yfir að pari sem lenti í vanda á Hornströndum í gærkvöld, vegna þoku. Talið er að parið sé einhversstaðar í Þorleifsskarði, á milli Fljótavíkur og Hlöðuvíkur.Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði var fólkið ófundið enn skömmu fyrir sjö í morgun. Björgunarmenn voru þá komnir að skarðinu en svartaþoka er enn á svæðinu og hamlar leit. Lögregla segir að þyrla landhelgisgæslunnar verði beðin um aðstoð um leið og léttir til, ef fólkið finnst ekki áður.