Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Leit stendur enn yfir í svartaþoku á Hornströndum

27.07.2020 - 06:55
Mynd með færslu
Gísli Jóns á siglingu til Hornstranda Mynd: Landsbjörg
Leit stendur enn yfir að pari sem lenti í vanda á Hornströndum í gærkvöld, vegna þoku. Talið er að parið sé einhversstaðar í Þorleifsskarði, á milli Fljótavíkur og Hlöðuvíkur.Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði var fólkið ófundið enn skömmu fyrir sjö í morgun. Björgunarmenn voru þá komnir að skarðinu en svartaþoka er enn á svæðinu og hamlar leit. Lögregla segir að þyrla landhelgisgæslunnar verði beðin um aðstoð um leið og léttir til, ef fólkið finnst ekki áður.

Björgunarskipið Gísli Jóns renndi inn í Fljótavík um klukkan hálftvö í nótt. Tveir eru í áhöfn Gísla Jóns og göngumenn eru sjö. Voru gönguhóparnir fluttir eftir Fljótsvatni á slöngubát til að koma þeim eins nærri Þorleifsskarði og hægt er til að stytta gönguna. Um sex kílómetrar eru að Þorleifsskarði frá lendingarstaðnum í Fljótavík.

Ekkert samband hefur náðst við fólkið síðan hjálparbeiðnin barst og ekki hefur tekist að staðsetja það nákvæmlega. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við fréttastofu í nótt að menn teldu sig þó vita nokkurn veginn hvar fólkið er. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV