Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Innflytjendur aðskotahlutur sem ekki er gert ráð fyrir

Mynd með færslu
 Mynd: Rætur - RÚV
Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingar, segir það umhugsunarefni að ekki hafi verið gert ráð fyrir að manneskja sem ekki tali nógu góða „stjórnsýslu-íslensku“ sé með íslenska kennitölu.

Villa í skráningarblaði sem fólk fyllir út þegar það kemur til landsins varð til þess að einstaklingur, búsettur hér á landi, var ekki kallaður aftur í sýnatöku. Sá hinn sami reyndist síðan smitaður af kórónuveirunni og smitaði sex einstaklingar honum tengdum af veirunni.

Sabine fjallar um málið í færslu á Facebook-síðu sinni og segir djúpt á einsleitninni í íslenskri stjórnsýslu.

„Landlæknisembættið hefur sýnt í vor að þar er brugðist við umsvifalaust ef eitthvað virkar ekki og ég efast ekki að svo verður í þessu tilfelli og þá er það afgreitt,“ segir hún í færslu sinni.

„En ég er samt svo hugsi yfir þessu, það er svo djúpt í kerfinu og í svo mörgum ferlum að íslenska samfélagið er einsleitt í grunni og innflytjendur einungis aðskotahlutur sem ekki er gert ráð fyrir í hönnun kerfisins, þannig að það þarf að finna sérlausn eftir á sem er oft séð sem íþyngjandi, stundum kostnaðarsamt.“

Skynsamlegra væri að hugsa fyrir slíku í upphafi og gera ekki frá byrjun ráð fyrir að allir séu eins, frekar en að setja plástra á eftir á.

Anna Sigríður Einarsdóttir